Við bjóðum fjölmiðlafólk velkomið á 10. landsfund  Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sem haldinn er á Grand hóteli í Reykjavík 6.–8. október 2017. Vinsamlegast skráið ykkur með því að senda tölvupóst á vg@vg.is.

Um landsfund

Landsfundur er æðsta vald hreyfingarinnar. Landsfundur ákvarðar stefnu hreyfingarinnar, setur og breytir lögum hreyfingarinnar, kýs flokksráð sem fer með ákvörðunarvaldið milli landsfunda og stjórn sem fer með daglegan rekstur.

Félagar VG, svæðisfélög og stjórn geta sent inn ályktunartillögur og lagabreytingartillögur sem eru teknar til umræðu og atkvæðagreiðslu á landsfundi.

Núverandi formaður VG er Katrín Jakobsdóttir og núverandi varaformaður er Björn Valur Gíslason, en hann hefur tilkynnt að hann muni ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu í því embætti.

Kosningar

Landsfundur kýs flokksráð sem fer með ákvörðunarvaldið milli landsfunda og stjórn sem fer með daglegan rekstur. Þar á meðal kýs fundurinn formann og varaformann. Frestur til að tilkynna framboð til stjórnar rennur út á föstudagskvöld 6. október og kosning fer fram á laugardag milli 14 og 15:30.

Frestur til framboðs í flokksráð rennur út við fundarlok á laugardegi og fer kosning fram kl. 9:30 á sunnudag.

Mikilvægar tímasetningar

  • Formaður VG flytur stefnuræðu sína kl. 16:40 á föstudeginum 6. október.
  • Almennar stjórnmálaumræður fara fram á föstudagskvöldið að loknu matarhléi.
  • Frestur til að tilkynna framboð til stjórnar rennur út við fundarlok á föstudagskvöldinu.
  • Kosning til stjórnar fer fram á laugardeginum milli 14 og 15:30. Úrslit eru tilkynnt jafnóðum.
  • Erlendir gestir flytja erindi kl. 10 og 13:30 og 16 á laugardeginum.
  • Lagabreytingar eru teknar til afgreiðslu kl. 16:45 á laugardeginum.
  • Flokksráð er kosið á sunnudagsmorgni.
  • Ályktunartillögur eru teknar til afgreiðslu eftir hádegishlé á sunnudeginum.
  • Kosningaáherslur VG 2017 verða kynntar kl. 14:00 á sunnudeginum.

Erlendir gestir

VG býður systurflokkum sínum af Norðurlöndunum að taka þátt í landsfundinum. Auk þess var þremur erlendum gestum boðið að flytja erindi á fundinum. Hér að neðan eru upplýsingar um erlendu gestina og hlutverk þeirra á fundinum. Óskir um viðtöl við erlenda gesti skulu berast Björgu Evu eða Höllu Gunnarsdóttur.

Pragna Patel

Pragna Patel er lögfræðingur og forstöðukona grasrótarsamtakanna Southall Black Sister. Samtökin eru leidd af konum af asískum uppruna og eru leiðandi femínísk samtök sem beita sér gegn rasisma, trúarlegu ofstæki og ofbeldi gegn konum. Patel hefur sérhæft sig í samspili kyns, kynþáttar og trúarbragða og var einnig einn af stofnendum samtakanna Women Against Fundamentalism. Breska fjölmiðlasamsteypan Guardian útnefndi Patel eina af eitt hundrað áhrifamestu akvistakonum heims árið 2011.

Patel flytur erindi á landsfundi VG laugardaginn 7. október kl. 10:00.

Fabian Hamilton

Fabian Hamilton er breskur þingmaður og skuggaráðherra Verkamannaflokksins í friðar- og afvopnunarmálum. Hann var kjörinn á þing fyrir norðaustur Leeds árið 1997 og sat lengst af í utanríkismálanefnd breska þingsins. Embætti skuggaráðherra í friðar- og afvopnunarmálum var komið á fót af Jeremy Corbyn, formanni Verkamannaflokksins, en sambærilegt embætti er ekki innan bresku ríkisstjórnarinnar. Hamilton er falið að að leita leiða til að draga úr ofbeldi, stríðum og átökum á heimsvísu og tala fyrir ábyrgri utanríkisstefnu Breta í þessum efnum, en Bretland er eitt af stærstu herveldum heims.

Hamilton flytur erindi á landsfundi VG laugardaginn 7. október kl. 13:30.

Høgni Hoydal

Høgni Hoydal er formaður færeyska Þjóðveldisflokksins og gegnir embætti varaforsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra Færeyja. Hann hefur setið á færeyska lögþinginu frá árinu 1998. Högni Hoydal hefur einnig átt sæti á danska þinginu en hann er ötull talsmaður fyrir sjálfstæði Færeyja.  Hann hefur setið lengi í Norðurlandaráði  og verið formaður Vinstri græna þingmannahópsins þar. Sem sjávarútvegsráðherra hefur Högni staðið í ströngu eftir að Færeyingar innleiddu uppboð á fiskveiðikvóta með það að markmiði að sem mestar tekjur af fiskveiðiauðlindinni skili sér inn í færeyskt samfélag.

Högni flytur erindi á landsfundi VG laugardaginn 7. október kl. 16:00.

Aðrir gestir

Fundinn sækja einnig eftirfarandi gestir frá Norðurlöndunum og geta verið til viðtals sé þess óskað:

Pia Olsen Dyhr, formaður Sósíalíska Þjóðarflokksins í Danmörku.

Aron Etzler, framkvæmdastjóri sænska Vinstriflokksins.

Christian Juhl, þingmaður Einingarlistans í Danmörku og fulltrúi í Norðurlandaráði.

Mia Haglund, framkvæmdastjóri flokkahóps Vinstri Grænna Sósíalista í Norðurlandaráði.

Aðstaða fyrir fjölmiðla

Borð verða tekin frá fyrir fjölmiðlafólk inni í aðalfundarsalnum en fjölmiðlafólki er frjálst að sitja hvar sem er. Aðgangsorð fyrir þráðlausa nettengingu verða aðgengileg á fundinum.

Tengiliðir við fjölmiðla

Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri VG, svarar spurningum fjölmiðla í síma 896 1222.  Einnig má hafa samband við Höllu Gunnarsdóttur í síma 699 0492.

Vegna viðtala við Katrínu Jakobsdóttur, vinsamlegast hafið samband við Lísu Kristjánsdóttur, aðstoðarmann formanns, í síma 899 9225.