Málefnahópar VG hafa undanfarið unnið að nýrri stefnu í eftirfarandi málaflokkum. Hóparnir hafa skilað af sér stefnudrögum sem verða tekin til afgreiðslu á landsfundi.

1. Atvinnumál

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Tillaga að stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í atvinnumálum

Mikilvægt er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf geti þrifist um allt land í sátt við náttúruna og umhverfið. Vinstri græn leggja áherslu á að öllum séu tryggð tækifæri til atvinnu við hæfi á mannsæmandi kjörum og að til staðar séu forsendur sem tryggi öllum jöfn tækifæri atvinnusköpunar.

 Atvinnustefna Vinstri grænna byggir á sanngjörnum kjörum, réttlátu skattkerfi, öflugri menntun, samvinnu, sjálfbærni, jöfnuði og félagslegu réttlæti. Hún skapar tækifæri til uppbyggingar um allt land.

Réttindi launafólks

Vinstri græn standa með launafólki og stéttarfélögum þeirra í baráttunni fyrir réttindum og bættum kjörum.

Laun þurfa að lágmarki að duga fyrir grunnframfærslu, vinnuvikan á að styttast án kjaraskerðingar og upphæðir almannatrygginga að fylgja launaþróun. Tryggja þarf þeim sem hafa fallið út af vinnumarkaði starfsendurhæfingu við hæfi í samstarfi við sveitarfélög. Launamuni kynjanna þarf að útrýma nú þegar og jafna kjör á milli stétta, sér í lagi þar sem eitt kyn er í miklum meirihluta.

Fjölga þarf möguleikum á menntun og þróun í starfi til þess að launafólk hafi aukin tækifæri og betri kjör. Tryggja þarf að komandi breytingar í atvinnuháttum vegna tækniþróunar verði til hagsbóta fyrir almenning og verði ekki til þess að skerða kjör launafólks.

Þeim sem ekki eru launþegar þarf að tryggja framfærslu án skilyrða. Brýnt er að tryggja réttindi ungs fólks sem er að fóta sig á vinnumarkaði og huga þarf sérstaklega að þeim sístækkandi hópi sem þiggur óregluleg laun fyrir vinnu sína.

Koma þarf í veg fyrir mansal, misnotkun á vinnuafli og félagslegt undirboð með samstarfi við verkalýðshreyfinguna, öflugra eftirliti með vinnumarkaðnum og ríkulegum framlögum til mansalsáætlunar stjórnvalda. Innleiða þarf keðjuábyrgð í lög þannig að ekki sé hægt að vísa allri ábyrgð á undirverktaka.

Skattkerfið ber að nýta til kjarajöfnunar. Tryggja þarf fjölþrepa skattkerfi sem færir skattbyrðina af lægri launum yfir á hærri laun, óháð því hvort um er að ræða launatekjur eða fjármagnstekjur. Berjast þarf gegn hvers kyns skattsvikum og svartri atvinnustarfsemi enda sviptir hún launafólk því öryggi og þeim réttindum sem stéttarfélögin veita.

Atvinnuþróun og innviðir

Til að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi um allt land er mikilvægt að tryggja að til staðar séu forsendur fyrir atvinnusköpun. Þar skipta bæði innviðir og stuðningskerfi sem miðar að uppbyggingu sjálfbærrar atvinnustarfsemi lykilmáli.

Framtíðin þarf að byggjast á jöfnum tækifærum öllum til handa, virðingu fyrir náttúrunni og gróskunni sem þrífst í fjölbreytninni en ekki stórum heildarlausnum. Þörf er á nýrri nálgun sem gengur út frá sjálfbærni, samvinnu, jöfnuði og félagslegu réttlæti.

Tryggja þarf jöfn tækifæri til atvinnusköpunar um allt land með markvissri uppbyggingu samgangna, fjarskiptum, háhraðanettengingar, menntunartækifæra, heilbrigðisþjónustu og annarrar grunnþjónustu. Einnig er mikilvægt að jafna búsetukostnað um allt land og tryggja samfélagsleg úrræði á húsnæðismarkaði. Gera þarf fólki af öllum kynjum kleift að sinna störfum sínum í ríkara mæli óháð staðsetningu, meðal annars með aukinni nýtingu tölvutækni, og auðvelda stofnun og umsýslu lítilla fyrirtækja.

Stefna um búsetumynstur til framtíðar á að byggjast á skilgreindum vaxtarsvæðum og miða að markvissri uppbyggingu landsbyggðarinnar á þeim. Um leið skal unnið áfram á grundvelli sértækra aðgerða með íbúum þeirra svæða sem brothættust eru í byggðalegu tilliti, t.d. þar sem konum fækkar mest.

Mikilvægt er að styrkja og auka fjölbreytni opinberra sjóða sem styðja við og fjárfesta í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Áhersla skal lögð á græna hvata og sterkari tengingu háskólastigsins við nýsköpunar- og sprotastarfsemi. Það skapar forsendur fyrir þekkingariðnað sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun. Þannig er einstaklingsframtakið virkjað best, möguleikum fyrir félagslegan rekstur fjölgar og rekstrarforsendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem og sprotafyrirtækja styrkjast.

Skapa þarf svigrúm fyrir fyrirtæki sem rekin eru af starfsfólki og fjármálastofnanir í eigu almennings. Bætum lagaumhverfi til að efla atvinnulýðræði og aðkomu starfsmanna að ákvörðunum og stefnumörkun í stofnunum og fyrirtækjum. Rétt er að búa einnig í haginn fyrir stofnun lýðræðislegra fyrirtækja og fjármálastofnana sem eru í eigu og undir stjórn starfsmannanna sem þar vinna og veita þeim beina hlutdeild í arðinum af eigin vinnu.

Stuðningskerfi atvinnulífsins þarf að stuðla að og endurspegla fjölbreytt atvinnulíf. Koma þarf á lýðræðislegu samráði og samtali sem víðast í samfélaginu um íslenskt atvinnulíf með aðkomu almennings, grasrótarsamtaka, sveitarfélaga, fræða og fyrirtækja. Meginmarkmiðið með slíkri vinnu yrði að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi í sátt við samfélag og auðlindir.

Standa þarf vörð um auðlindir landsins og tryggja að núverandi kynslóðir skili þeim í betra ástandi til komandi kynslóða. Auðlindanýting, hvort sem er innan sjávarútvegs, landbúnaðar, orkugeirans eða annars, skal byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og ávallt grundvallast á því að auðlindirnar séu þjóðareign og arðurinn eigi að nýtast fólkinu í landinu. Þeim sem hafa tekjur af nýtingu auðlinda, þar á meðal orkuauðlinda og sjávarauðlindarinnar, ber að greiða fyrir það sanngjarnt gjald til þjóðarinnar, eiganda auðlindanna.

Ljóst er að atvinnuhættir iðnríkja eru óðum að breytast með sjálfvirknivæðingu og vaxandi vægi upplýsingatækni. Ísland er þar engin undantekning. Á næstu árum og áratugum mun ráðast hvort Ísland skipar sér í flokk þjóða sem nýta framfarir í tölvu-, upplýsinga- og tæknigeiranum til að hefja uppbyggingu á nýjum grunni kvenfrelsis, jafnaðar, sjálfbærni, breytts gildismats og frjálsrar búsetu.

Elías Jón Guðjónsson og Bergþóra Benediktsdóttir

2. Efnahagsmál

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Tillaga að stefnu VG í efnahagsmálum

Skattkerfi sem stuðlar að jöfnuði

Sjálfbær vöxtur

Heilbrigt fjármálakerfi

Eðlileg hagstjórnartæki til að efla velferðarsamfélagið

Peningastefna sem fer saman við ríkisfjármálastefnu

Sátt á vinnumarkaði byggist á sátt um velferðarkerfið

Inngangur

Öflugt efnahagslíf er samtvinnað öflugu velferðarkerfi og skýrri sýn í umhverfismálum þar sem auðlindir eru nýttar með sjálfbærum hætti. Undirstaða öflugs efnahagslífs er blandað hagkerfi þar sem hinir efnamestu eru skattlagðir umfram hina tekjulægri en sú stefna hefur skilað mestri hagsæld og mestum jöfnuði. Áherslur Vinstri grænna í ríkisfjármálum taka mið af grunnstefnu hreyfingarinnar um öflugt velferðarkerfi á Íslandi og að vöxtur sé sjálfbær og gangi ekki á auðlindir. Mikilvægur grunnur að því er  að skattkerfið sé skilvirkt, réttlátt, grænt, jafni tekjur og eyði aðstöðumun.

Ríkjandi hugmyndafræði undanfarinna áratuga um óheftan markað, umfangsminna hlutverk ríkisins og lága skatta á hæstu tekjur hefur  skilað sér annars vegar í minnkandi hagsæld og  í þeirri staðreynd að hagsældin skilar sér misjafnlega til almennings þannig að ójöfnuður eykst. Ójöfnuðurinn hefur ekki aðeins í för með sér minnkandi hagsæld heldur einnig vaxandi kynþáttahyggju og jaðarsetningu minnihlutahópa. Skattaskjól og aflandsfélög hafa síðan verið sérstakur vandi fyrir hagsæld sem og alþjóðleg skattasamkeppni sem gerir atvinnurekendum kleift að flytja sín fyrirtæki milli landa.

Þó að tekjujöfnuður sé meiri á Íslandi en víðast hvar annars staðar þá er eignastaðan mjög ójöfn. Ríkustu tíu prósentin eiga um þrjá fjórðu allra eigna en eignaminnstu 30 prósentin eiga nánast ekkert eða minna en ekkert. Aukin einkavæðing hefur svo aukið þessa misskiptingu eigna þar sem eignir hverfa úr almannaeign og verða eignamestu aðilunum að féþúfu. Til að sporna gegn þessari misskiptingu ber að nýta skattkerfið til að jafna eignastöðu. Þá sýna rannsóknir líka að flutningur fjármagns með því að draga úr tekjumun með því að styrkja stöðu hinna tekjulægstu skilar sér hratt og örugglega út í samfélagið og eykur hagsæld.

Mikilvægt er að á næstu misserum verði ráðist í endurskoðun á skattkerfinu með aðkomu aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingarinnar, fulltrúa aldraðra, öryrkja og stúdenta með framtíðarsýn í huga. Skoða þarf líka breytingar vegna aukinnar sjálfvirkni og tæknivæðingar sem á eftir að hafa róttæk áhrif á íslenskan vinnumarkað og greina til hvaða aðgerða þarf að grípa til að tryggja mannsæmandi kjör launafólks. Um leið þurfa stjórnvöld að stuðla að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu og nýsköpun á öllum sviðum til að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf og tryggja íslenskt samfélag og atvinnulíf sé sem best í stakk búið til að takast á við áskoranir tæknivæðingar, loftslagsbreytinga og annarra fyrirsjáanlegra samfélagsbreytinga. Liður í því er að ná sátt um nýja mælikvarða sem meta hagsæld, félagslegan auð, kynjasjónarmið og loftslagsmarkmið en ekki eingöngu hagvöxt sem er takmarkaður mælikvarði til þess og byggja þannig efnahagsstjórn á fjölbreyttari sjónarmiðum en nú er gert.

Ríkisfjármál og skattar

Ríkisfjármál eru í raun reikningshald samneyslu og samhjálpar. Þau verða að samræmast markmiðum samfélagsins og því er það pólitísk ákvörðun hver útgjöldin eiga að vera og hverjar tekjurnar. Skattkerfið byggist því á félagslegum og efnahagslegum markmiðum. Að mati sífellt fleiri  fræðimanna er skattkerfið langáhrifamesta tæki samfélagsins til að auka jöfnuð í samfélaginu. Jöfnuður er í sjálfu sér ekki aðeins réttlætismál heldur líka mikilvægt hagstjórnarmarkmið. Um það vitna fjöldi alþjóðlegra rannsókna og skýrslna sem allar sýna að  aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti . Efnahagsstefna sem dregur úr ójöfnuði leiðir því ekki einungis til réttlátara þjóðfélags heldur verða þjóðfélögin einnig auðugri. Meiri jöfnuður leiðir því til sanngjarnari þjóðfélaga og styrkir hagkerfin.

Skattar eiga að tryggja öflugt velferðarsamfélag og stuðla að jöfnuði. Þess vegna hefur verið bent á mikilvægi auðlegðar­skatts og þrepaskipts fjármagnstekjuskatts.    Slíkar aðgerðir auka að sjálfsögðu jöfnuð en eru líka mikilvæg tekjuöflun til að styrkja innviði íslensk samfélags sem hafa verið vanræktir um langt skeið. Til að sú uppbygging geti farið fram með efnahagslega ábyrgum hætti er mikil­vægt að styrkja tekjustofna ríkisins til frambúðar. Réttlátasta leiðin til þess er að skattleggja fjármagnið þar sem það er að finna. Ísland á að skipa sér í framvarðarsveit ríkja þar sem skattalegar stöðutökur og brask með gjaldmiðla og skammtímagróða fjármagnshreyfingar  verði skattlagt. Eðlilegt er að innleiða hlutfallslega lágan auðlegðarskatt á eignir (að undanskildu íbúðarhúsnæði) og innleiða einnig þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt.

Þá er eðlilegt að hafa þrepaskiptan tekjuskatt þar sem ofurtekjur eru skattlagðar hlutfallslega meira en lægri tekjur.

Til að stemma stigu við skattaundanskotum einstaklinga og fyrirtækja frá velferðarkerfinu þarf að stórefla skattaeftirlit og skattrannsóknir. Nýtingu aflandsfélaga í skattaskjólum á að banna eða takmarka sem kostur er.  Aðgerðir í skattamálum eiga að þjóna markmiðum um öflugt velferðarsamfélag, aukinn jöfnuð og önnur samfélagsleg markmið. (Sjá fylgiskjal 1)

Lög um opinber fjármál

Frá því að lög um opinber fjármál voru samþykkt árið 2015 hefur það verið gagnrýnt bæði á vettvangi Alþingis og af ýmsum sérfræðingum að svigrúmi við beitingu ríkisfjármálanna til skynsamlegrar hagstjórnar og sveiflujöfnunar séu settar of þröngar skorður. Eðlilegra væri að setja þess í stað ákvæði um að hver ríkisstjórn skuli í upphafi starfstíma síns setja fram markmið í sömu efnum í ríkisfjármálaáætlun í takti við alþjóðleg viðmið.

Hagstjórnarreglur núverandi laga um opinber fjármál ganga í raun lengra en svokölluð Maastricht-viðmið og fyrir þeim eru ekki haldbær rök. Þannig getur of hröð og mikil niðurgreiðsla skulda verið beinlínis skaðleg fyrir mikilvæga samfélagsinnviði, svo sem heilbrigðis- og menntakerfið. Krafan um hallalaust fimm ára tímabil getur einnig hindrað virka efnahagsstjórn og tryggir ekki  jafnvægi og getur jafnvel verið til hindrunar því að jafnvægi náist. Á samdráttarskeiði getur reglan t.a.m. hindrað virka beitingu ríkisfjármála til að örva atvinnulíf. Fimm ára viðmið er of stuttur tími þar sem hagsveiflan getur verið mun lengri og samdráttarskeið kann enn að vera til staðar þótt fjármálareglan krefjist aðhaldsaðgerða sem gangi gegn ríkjandi ástandi og auki því samdráttinn. Þá er árlegt hallamark 2,5% órökstutt.

Í heild hefur verið bent á að fjármálareglur laganna um opinber fjármál leggi ekkert til við stjórn efnahagsmála á þenslutíma eða í aðdraganda ójafnvægis, en geti verið til óþurftar við að vinna á afleiðingum á samdráttartíma sem fylgi í kjölfarið.

Heilbrigt fjármálakerfi

Mjög hefur verið kallað eftir þverpólitískri og faglegri vinnu um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið áður en teknar verða frekari ákvarðanir um sölu ríkisbanka.  Fjalla þarf um umfang bankakerfisins. Setja þarf eðlilegar reglur um eignarhald og skoða til dæmis hvernig er hægt að tryggja að íslensk fjármálafyrirtæki séu ekki í eigu aflandsfélaga í skattaskjólum. Fjalla þarf um hvort reglur um eiginfjárhlutfall dugi til á íslenskum markaði.

Ræða þarf hver eigi að vera hlutur og þátttaka ríkisins á fjármálamarkaði og gera áætlun um hvað skal selja stóra hluti í þeim bönkum sem nú eru í eigu ríkisins.

Vinstri græn leggja áherslu á að ríkið verði áfram aðaleigandi Landsbankans. Aðskilja þarf starfsemi bankanna í  viðskipta- og fjárfestingastarfsemi og hins vegar í innlenda og erlenda starfsemi. Skoða þarf forsendur og lagaumgjörð fyrir samfélagsbanka sem starfar samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum

Greina þarf umfang svokallaðrar skuggabankastarfsemi í íslensku efnahagslífi þar sem lífeyrissjóðir og önnur fyrirtæki eru orðin umfangsmiklir lánveitendur til fyrirtækja og einstaklinga. Koma þarf reglum yfir lánveitingar hjá skuggabönkum, til dæmis að skuldbinda þessi fyrirtæki til að framkvæma greiðsluhæfismat á öllum lánum yfir tiltekinni fjárhæð, og tryggja þannig vernd íslenskra neytenda og íslenska hagkerfisins.

Húsnæði eru grundvallarmannréttindi og eðlilegt að áfram verði til félagslegur húsnæðislánasjóður sem tryggi meðal annars lán til kaupa á húsnæði um land allt. Bregðast verður við því neyðarástandi sem skapast hefur á húsnæðismarkaði þar sem framboð hefur ekki fylgt eftirspurn, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, en ekki síður úti á landi þar sem byggingarkostnaður hefur reynst íþyngjandi miðað við möguleika á lánsfé. Skoða þarf til hlítar hvort rétt er að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni þannig að húsnæðisverð og þróun þess hafi ekki ráðandi áhrif á verðbólgumælingar.

Draga þarf úr vægi verðtryggingar með auknu framboði á óverðtryggðum lánum en einnig með því að fjölga þeim tækjum sem eru fyrir hendi til að fylgja eftir peningastefnu stjórnvalda og lækka þannig vaxtakostnað almennings. Þannig hafa skattalækkanir síðustu ára beinlínis unnið gegn markmiðum peningastefnunnar, hugsanlega með þeim afleiðingum að vextir hafa lækkað hægar en ella. Fara þarf heildstætt yfir húsnæðisstuðningskerfi hins opinbera þar sem eru mörg ólík kerfi og meta hvert eigi að stefna til framtíðar þannig að húsnæðisstuðningur hins opinbera verði efldur og nýtist fyrst og fremst lág- og meðaltekjuhópum.

Endurskoða þarf lífeyrissjóðakerfið með það að markmiði að draga úr kostnaði við yfirbyggingu. Arðsemiskrafa á lífeyrissjóði sem nú er 3,5% ofan á verðtryggingu gerir það að verkum að vextir á húsnæðislán/námslán eru aldrei undir 5%. Draga má úr þessari arðsemiskröfu. Tryggja þarf að lífeyrissjóðir setji sér samfélagsleg markmið í fjárfestingum sem til að mynda uppfylla umhverfissjónarmið.

 Samspil efnahagsstjórnar og vinnumarkaðar 

Mikilvægt er að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði en sá stöðugleiki má ekki snúast um að halda láglaunahópum niðri og niðurrif velferðarkerfisins. Nýstofnað þjóðhagsráð þarf að fjalla um félagslegan stöðugleika ekki síður en efnahagslegan stöðugleika og þar þarf verkalýðshreyfingin að eiga sæti. Þá er eðlilegt að komið verði á laggirnar sem fyrst Þjóðhagsstofnun sem sé sjálfstæð stofnun.

Til að unnt verði að skapa almenna sátt um eðlilega launaþróun í landinu þarf að ráðast í markvissar aðgerðir til að efla bæði skattaeftirlit og vinnueftirlit. Þannig verði spornað gegn launastuldi, og markvisst barist gegn mansali og þrælahaldi sem er svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði. Skoða þarf hvort unnt sé að skylda fyrirtæki til að upplýsa um launabil innan hvers fyrirtækis í ársreikningum og efna til víðtæks samtals um hvað sé ásættanlegur launamunur í samfélaginu og hvort hann eigi að vera þrefaldur eða fjórfaldur. Stefnt skal að því að minnka launabilið og útrýma með öllum tiltækum ráðum launamun kynjanna. Slíkar aðgerðir, ásamt skýrri framtíðarsýn um skattkerfið og velferðarsamfélagið, eru grundvöllur þess að unnt verði að ná stöðugleika á vinnumarkaði.

 

PENINGASTEFNA

Í þeim greiningum sem unnar hafa verið fyrir stjórnvöld um valkosti í gjaldmiðlamálum eru tveir valkostir sem hafa þótt raunhæfir. Annars vegar að Ísland haldi sjálfstæðri peningastefnu með íslenska krónu sem gjaldmiðil. Þar sé viðhaldið ákveðnu verðbólgumarkmiði en hugsanlega sett önnur markmið, s.s. gengisstöðugleikamarkmið eða markmið um tiltekið atvinnustig. Hins vegar að Ísland gangi í Evrópusambandið, verði aðili að Myntbandalagi Evrópu og taki upp evru og verði þar með hluti af samevrópskri peningastefnu undir forystu evrópska Seðlabankans. Aðrar leiðir, s.s. einhliða upptaka annars gjaldmiðils eða svokallað myntráð, hafa verið skoðaðar og hingað til ekki þótt fýsilegar. Myntráð væri til að mynda mjög dýr leið fyrir lítið samfélag enda kallar það á stóran gjaldeyrisvaraforða og hefur almennt ekki tíðkast nema í einhvers konar millibilsástandi hjá ríkjum sem til að mynda hafa stefnt inn í ESB (þó að einhver fleiri dæmi séu til).

Krónan er lítill gjaldmiðill og hefur hingað til verið sveiflukennd og þar með endurspeglað miklar sveiflur í hagstjórninni. Efasemdir hafa verið uppi um að krónan dugi til að skapa efnahagslegan stöðugleika en um leið má ekki gleyma því að margháttaðar aðgerðir, til dæmis skattalækkanir á þenslutímum, hafa beinlínis unnið gegn yfirlýstum markmiðum um stöðugleika. Ef Ísland heldur áfram að nýta sér krónuna sem gjaldmiðil þarf að tryggja að peningastefnan taki mið af ekki aðeins efnahagslegum stöðugleika heldur einnig félagslegum stöðugleika.

Innganga í ESB er mun stærri ákvörðun en svo að hún snúist eingöngu um gjaldmiðil eða peningastefnu. Hins vegar hefur efnahagsstefna ESB verið harðlega gagnrýnd á undanförnum árum eftir kreppu fyrir að byggjast um of á hægrisinnaðri sveltistefnu gagnvart aðildarríkjum og ekki gefa nægjanlegt svigrúm til sveiflujöfnunar. Bent hefur verið á að evrópski Seðlabankinn þyrfti að huga að fleiri sjónarmiðum við hagstjórn fyrir utan að uppbygging sjálfs kerfisins er ólýðræðisleg þar sem evrópski Seðlabankinn hefur gríðarleg völd án þess að lýðræðislegt umboð hans sé skýrt. Stefna Vinstri grænna hefur verið sú að standa utan ESB en hins vegar er hreyfingin reiðubúin að leggja það mál í hendur þjóðarinnar enda um stórt mál að ræða sem eðlilegt er að allur almenningur taki ákvörðun um.

Katrín Jakobsdóttir og Björn Valur Gíslason

 

Fylgiskjal 1.

Auðlegðarskattur

Auðlegðarskattur er nauðsynlegur hluti af tekjuskattkerfinu enda getur eignafólk nýtt sér eignir sínar til að hafa af þeim tekjur án þess að þær myndi skattstofn. Þá er auðlegðarskattur nauðsynlegt tæki til að draga úr ójafnri skiptingu auðs í landinu. Eðlilegt væri að miða við lágt hlutfall (1%-1,5%) og hátt almennt fríeignamark (þannig að flestir séu undanþegnir en stóreignafólk borgi sanngjarnan hlut sinn til samfélagsins).

Þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur

Fjármagnstekjuskattur leggst á skuldabréfaeign, tekjur af vöxtum, leigu á húsnæði og hagnað af sölu fasteigna og verðbréfa. Eðlilegt er að hafa fjármagnstekjuskatt annaðhvort þrepaskiptan eða hækka frítekjumarkið/skattleysismörk á háar fjármagnstekjur og skattleggja þær í takt almennar launatekjur. Slík aðgerð er bæði réttlætismál og getur skilað verulegum tekjum í ríkissjóð.

Hluti fjármagnstekjuskatts renni til sveitarfélaga

Lykilatriði er að hluti fjármagnstekjuskatts renni til sveitarfélaga sem ekki fá neinar tekjur af þeim sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt. Hins vegar liggur líka fyrir að gjaldendur þessa skatts dreifast misjafnlega á sveitarfélögin og því er lagt til að þær tekjur renni í gegnum Jöfnunarsjóð sveitafélaga

Sérstakt hátekjuþrep í tekjuskatti

Til að taka á svokölluðum ofurtekjum, til dæmis í kaupaukum, er skilvirkasta leiðin að setja á sérstakt hátekjuþrep í tekjuskattskerfinu sem tekur á mjög háum tekjum en kemur við tiltölulega fáa aðila.

Lækkun virðisaukaskatts á matvæli

Óbeinir skattar á borð við virðisaukaskatt leggjast hlutfallslega þyngra á tekjulága en tekjuháa. Því er eðlilegt að beita virðisaukaskattkerfinu til að jafna kjör eða til að ná fram öðrum samfélagslegum markmiðum. Það er til dæmis hægt með því að lækka virðisaukaskatt á neysluvörur á borð við matvæli sem gagnast mun barna – og fjölskyldufólki og tekjulægri hópum, eða á menningu eins og bækur og tónlist.

Leiðrétting persónuafsláttar

Persónuafsláttur verði þrepaskiptur þannig að hann nýtist lágtekjuhópum sem best og fylgi verðlagsþróun. Tryggja þarf að tekjulægstu hópunum sem eru undir markmiðum um grunnframfærslu séu undir skattleysismörkum.

Lýðheilsuskattar

Rannsóknir sýna að skattar á óholla mat- og drykkjarvöru eru áhrifaríkasta leiðin til að bæta heilsu fólks með því að draga úr útgjöldum vegna hennar. Því munu Vinstri græn beita sér fyrir að vöruflokkar sem innihalda sykraða gosdrykki og sykraða matvöru verði færðir í hærra virðisaukaskattsþrep.

Umhverfiskattar

Bent hefur verið á að kolefnisgjald sé áhrifamesta skattlagningin til að draga úr notkun óendurnýjanlegra orkugjafa. Kolefnisgjald og skattar á bensín, dísilolíu og olíu til upphitunar eru almennt lægri hér á landi en hjá öðrum Norðurlöndum. OECD hefur bent á að  gjald sem ýmsar þjóðir hafa lagt á útblástur koltvísýrings sé um það bil 80% of lágt til þess að það nýtist sem skyldi til að verja loftslag jarðarinnar. Með því að hækka gjöldin og afnema undanþágur frá kolefnisgjaldi væri hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarra mengunarvalda um leið og tekjur myndu renna í ríkissjóð. Sama má segja um aðra græna skatta sem er eðlilegt að hækka til að ná fram markmiðum í umhverfismálum.

Grænar skattaívilnanir

Rétt eins og grænir skattar skipta máli til að ná fram markmiðum í umhverfismálum geta grænar skattaívilnanir nýst í sama markmiði. Eðlilegt er að nýfjárfestingar uppfylli loftslagsmarkmið og ekki séu gerðir frekari ívilnandi fjárfestingasamningar í þágu mengandi starfsemi. Umhverfisvænni samgöngumátar njóti ákveðinna skattaívilnana til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum svo dæmi sé tekið, sem og matvælaframleiðsla sem uppfyllir loftslags- og sjálfbærnimarkmið.

Auðlindagjöld

Innheimta á gjald af nýtingu auðlinda og tryggja þannig að arðurinn af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sem eru takmörkuð gæði, renni til þjóðarinnar ef þær eru ekki nýttar með samfélagslegum hætti í þágu almennings. Lykilatriði er að auðlindagjöld eru arðgreiðslur en ekki skattar. Þannig væri tekjuskattsstofninn slakur mælikvarði á auðlindaarðinn og ræðst af ýmsum öðrum þáttum (vaxtakjörum, frádráttarbærum fjármagnskostnaði o.fl.) en auðlindagjaldið á að vera greiðsla fyrir réttinn til að nýta auðlindina og sú greiðsla getur t.d. ekki ráðist af því hvort fyrirtækið fjármagnar sig með eigin fé eða lánum. Því munu Vinstri græn beita sér fyrir sanngjörnum auðlindagjöldum  sem myndu renna í sameiginlega sjóði íslensks samfélags og endurspegla á þann hátt að auðlindirnar eru sameign þjóðarinnar og þeir sem nýta þessi takmörkuðu gæði njóta forréttinda.

Komugjöld og gistináttagjöld

Greina þarf bestu leiðirnar þannig að þeir  sem hagnast á stærstu útflutningsgrein íslensks atvinnulífs, ferðaþjónustunni,  greiði sanngjarnan hlut í sameiginlega sjóði. Vinstri græn hafa lagt til að setja komugjöld á farseðla og breyta gistináttagjaldinu þannig að það sé í hlutfalli við verð gistinátta. Ennfremur að gistináttagjaldið eða hluti þess renni til sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Alþjóðlegt samstarf í skattamálum

Ísland á að vera í fararbroddi í alþjóðlegu samstarfi í skattamálum um upplýsingaskipti og aukið gagnsæi. Vextir, þóknanir og þjónustugreiðslur til aðila á lágskattasvæðum verði skattlögð sérstaklega og þannig markvisst unnið gegn aflandsfélögum í skattaskjólum.

3. Neytendamál

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Tillaga að stefnu VG í neytendamálum

Markaðshagkerfið er neysludrifið. Hegðun neytandans á markaðstorginu er því mikilvæg, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið. Ábyrgur neytandi hugar að afleiðingum neyslu sinnar og leitast við að samræma hana sjónarmiðum um umhverfis- og náttúruvernd, sjálfbærni, dýravelferð, heiðarleika og gott siðferði í viðskiptum og sanngjörn skilyrði launafólks og annarra sem annast framleiðslu, dreifingu og sölu á vöru og þjónustu. Neytendur þurfa margþættar upplýsingar og vitneskju til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um neytendamál í eigin þágu og samfélagsins og mikilvægt er að þeir geti leitað réttar síns í stóru og smáu ef þeir telja á sér brotið.

Neytendamál snúast um hagsmuni heildarinnar.

Öll erum við neytendur og til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir þurfa upplýsingar að vera góðar og aðgengilegar.

Það er markmið stefnu VG að neytendur kjósi ávallt að taka mið af sjálfbærni og tilliti til umhverfis og að hegðunarmynstur neytenda sé í samræmi við hagsmuni heildarinnar. Neytendastefnan á að vera umhverfis- og samfélagsvæn og efnahagslega sjálfbær.

Hafa ber í huga að fákeppni er meðal einkenna íslensks neytendamarkaðar og almennt þykir ljóst að samþjöppun markaðshlutdeildar er meiri hér á landi en í nálægum Evrópulöndum.

Lagasetning um neytendamál hér á landi hefur á síðustu árum einkennst af innleiðingu neytendalöggjafar að evrópskri fyrirmynd með EES-samninginn að bakhjarli. Þó skortir enn verulega á að stuðningur hins opinbera við neytendur og neytendavernd geti talist nægilega öflug og brýn þörf er fyrir heildstæða löggjöf á sviði neytendamála.

Slík löggjöf er nauðsynleg til að innleiða sjálfbærnimarkmið í neytendarétt og gera kröfu um að merkingar gefi réttar upplýsingar um siðlega framleiðslu- og viðskiptahætti, sjálfbærni og visthæfi. Löggjöf um neytendamál þarf að styrkja og vernda rétt neytenda gegn sölu á gallaðri vöru, vörusvikum og öðrum vanefndum á markaði, tryggja skjótfarnar og skilvirkar leiðir til að ráða fram úr ágreiningi og koma því til leiðar að niðurstaða í deilumálum neytenda og söluaðila verði virt.

Ýmis konar eftirlit fer fram á mörgum sviðum samfélagsins og vottanir samkvæmt því eiga að tryggja að farið hafi verið að reglum og skilyrðum fullnægt. Almenningur á rétt á því að mark sé takandi á vottun af slíku tagi.

Full ástæða er til að stjórnvöld taki eftirlitshlutverk sitt alvarlega og sinni því af einurð.

Brýnt er að bæta söfnun og birtingu ýmissa upplýsinga sem koma neytendum að góðum notum. Sem dæmi má nefna þróun verðlags á smávörumarkaði, verðþróun á fasteignamarkaði, lánakjör og ýmislegt sem lýtur að fasteigna- og bankaviðskiptum. Fasteignakaup eru yfirleitt stærsta fjárhagslega viðfangsefni launafólks sem á mikið undir því að fá áreiðanlega upplýsingar og ráðleggingar á því sviði. Sama getur átt við um leigjendur á leigumarkaði.

Frjáls félagasamtök geta gegnt mikilvægu hlutverki á vettvangi neytendamála, einkum upplýsingaöflun um verðlag og verðlagsþróun og félagasamtök á borð við Neytendasamtökin og samtök launafólks geta liðsinnt félagsmönnum með ýmsu móti við að ná rétti sínum. Sjálfsagt er að hvetja neytendur til aðildar að neytendafélögum og samtökum og styðja við þau, ásamt því að efla samstarf frjálsra félagasamtaka og opinberra aðila á sviði neytendamála.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill stefna að því að

 • sett verði heildarlöggjöf um neytendamál
 • upplýsingagjöf um vörur og þjónustu verði aukin til að stuðla að auknu gagnsæi og rekjanleika vörunnar
 • neytendavernd verði aukin, einkum á fjármála-, fasteigna- og leigumarkaði
 • Ísland taki þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði neytendamála

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill leggja áherslu á að:

 • auka þekkingu neytenda á öllum aldri um áhrif neyslu á umhverfið – jafnt vistkerfi og samfélag
 • hvatt skuli til siðrænnar neyslu sem eflir vistkerfið og félagskerfi manna,
 • stuðlað verði að endurnýtingu á þeim sviðum þar sem það er í samræmi við þarfir vistkerfis og samfélags
 • ríkisvaldið setji markmið um síminnkandi notkun eiturefna og óhollra efna og standi að aðgerðum í samvinnu við sveitarfélög og aðila atvinnumarkaðarins sem stuðli að eiturefnalausu samfélagi,
 • að þarfir barna verði hafðar að leiðarljósi í neytendamálum sem koma þeim við, ekki síst þeim er varða heilsu, útlit og ímyndarsköpun,

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill að

 • reglur sem settar eru um sölu vöru og þjónustu gildi jafnt um alla vöru og alla þjónustu. Mismunun á ekki að líðast,
 • samkeppnisskilyrði fyrir fyrirtæki séu jöfn og að bann verði sett á óheiðarlega viðskiptahætti,
 • stjórnvöld stuðli að ódýrum, fljótlegum og auðveldum leiðum fyrir neytendur að leita réttar síns,
 • neytendur búi að fjölbreyttum lausnum, ekki síst á húsnæðismarkaði, þar sem stórauka þarf hagkvæma valkosti varðandi leiguhúsnæði,
 • sérstaklega skuli hugað að neytendamálum með hliðsjón af félagslegum og efnahagslegum aðstæðum og breytingum á þeim hverju sinni,
 • neytendastefna stjórnvalda taki mið af umhverfisbreytingum og nýrri þekkingu vísindanna,
 • markaðseftirlit sé skilvirkt sem og samstarf aðila á markaði, en hvort tveggja á að draga úr áhættu sem varðar heilsu og öryggi fólks,
 • réttindi neytenda skuli tryggð, m.a. með eftirliti með birtingu auglýsinga, sem ávallt skulu innihalda réttar og skýrar upplýsingar til neytenda um þá vöru eða þjónustu sem auglýst er,
 • litið sé á ferðir og ferðalög sem neytendamál og að lágmarksréttindi farþega verði ávallt tryggð þegar upp koma ágreiningsmál,
 • almenningur, sem og fyrirtæki, eigi gott aðgengi að upplýsingum, ráðgjöf og stuðningi við neytendamál,
 • berskjaldaðri hópar neytenda, s.s. börn, aldraðir og öryrkjar, njóti betri verndar gegn misnotkun markaðsafla,
 • að neytendur búi að aðstoð við að taka ákvarðanir sem byggir á skýrum, réttum og samræmdum upplýsingum, bæði hvað varðar daglega neyslu, eins og matvöru og stærri neytendamál eins og húsnæðismál.

Jakob Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Ingimar Karl Helgason

4. Orkumál

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Tillaga að stefnu VG í orkumálum

Sjálfbærni, öryggi og ábyrgð

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur frá stofnun haft sjálfbærni að leiðarljósi, ekki síst þegar kemur að nýtingu og vinnslu vatnsafls og jarðvarma. Gæta verður varúðar- og verndarsjónarmiða við orkuöflun. Stórvirkjanir í þágu mengandi stóriðju samrýmast ekki sjálfbærri orkustefnu. Greiða þarf sanngjarnt gjald þegar auðlindir í eigu þjóðarinnar eru virkjaðar og gera verður kröfu til þess að stórnotendur greiði sanngjarnt verð fyrir orkuna sem þeir kaupa sem og allan kostnað við flutning og afhendingu hennar.

Ísland þarf að taka mið af niðurstöðum vísindamanna og setja stefnuna á að verða kolefnishlutlaust árið 2040. Ísland á jafnframt að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 2°C og beita sér fyrir því að jarðefnaeldsneyti verði ekki unnið á Norðurslóðum. Tryggja þarf rannsóknir og viðbúnað vegna þeirra breytinga sem þegar eru hafnar í vistkerfinu og eru óumflýjanlegar. Styrkja þarf fátækari þjóðir til að minnka losun og byggja upp viðnámsþrótt og veita nægilegu fjármagni til orkuskipta og mótvægisaðgerða gegn loftslagshlýnun.

Vinstrihreyfingin grænt framboð telur að við þessar aðstæður, og í ljósi Parísarsamkomulagsins, komi ekki til greina að ráðstafa meiri orku til mengandi stóriðju, sem nú þegar nýtir tæplega 80% af allri raforkuframleiðslu í landinu. Þvert á móti er eðlilegt að kanna hvort ekki megi draga úr  raforkunotkun í þágu stóriðjunnar, til dæmis með því að hefja endurskoðun raforkusamninga til stóriðju til framtíðar, með því markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, fækka mengandi stóriðjuverum, auka fjölbreytni í iðnaði og fjölga í hópi „grænna“ fyrirtækja sem nota raforku á Íslandi.

Deilur um orkuöflun og -nýtingu hafa allt of lengi skipt þjóðinni í fylkingar. Það helgast ekki síst af því að áherslan hefur um of verið á orkuöflun fyrir stóriðju með tilheyrandi stórframkvæmdum í virkjunum og línulögnum. Almenni raforkumarkaðurinn, ylrækt og uppbygging lítilla og meðalstórra fyrirtækja hafa ekki verið í forgangi og hafa liðið fyrir þessa þróun.

Það er tímabært að höggva á þennan hnút, setja punkt aftan við stórframkvæmdir sem fylgja stóriðjunni og huga að því hvernig við getum nýtt orkuauðlindir landsins til að uppfylla Parísarsamkomulagið og draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Sátt þarf að ríkja um það hvernig við umgöngumst sameiginlegar auðlindir okkar í vatnsafli og jarðvarma. Það er markmið Vinstri grænna að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum leysi innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi, jafnhliða því sem gætt sé varúðar- og verndarsjónarmiða. Til að það verði mögulegt þarf að leggja til hliðar hugmyndir um stórvirka orkuöflun í þágu einstakra iðnaðarverkefna.

 Ný viðhorf í orkubúskap

Orkubúskapur næstu áratuga á að snúast um kolefnisjöfnun, þ.e. að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda alls staðar og binda kolefni með gróðri. Bættar almenningssamgöngur og orkuskipti í samgöngum er einn mikilvægasti áfanginn á leið Íslands til að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Með orkuskiptum er átt við að nýta raforku og innlent eldsneyti í vaxandi mæli á bíla, vinnuvélar, báta og skip og flugvélar eftir því sem tækni leyfir. Orkuspárnefnd hefur reiknað að á næstu 30 árum muni almennur iðnaður og þjónusta þurfa 500–600 MW orku til viðbótar við það sem nú er. Á sama tímabili munu raforkusamningar til stóriðju fyrir sama magn renna út. Rannsaka þarf ítarlega allar efnahagslegar, samfélagslegar og umhverfislegar hliðar raforkusamninga, sem og möguleika til þess að færa 600 MW af orku úr stóriðju í almennan iðnað og þjónustu, og forðast þannig að byggja frekari virkjanir. Þurfi hins vegar nýjar virkjanir til að uppfylla þessa þörf verður að ríkja sátt um það hvernig þeirrar orku er aflað. Mestu skiptir að það verði gert hægt og bítandi í takti við vaxandi notkun, til að mæta fólksfjölgun og þörfum grænna og meðalstórra fyrirtækja en ekki í einstaka stórstökkum. Einnig þarf að horfa til betri nýtingar, minnka töp í kerfinu, bæta nýtingu í virkjunum sem fyrir eru og til nýrrar tækni og aðferða við orkuöflun.

Framþróun í vistvænum samgöngum á Íslandi til 2030 fer farsællegast fram með því að gera almenningssamgöngur að raunhæfum valkosti fyrir flesta, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli, og nýta fjölbreytta orkugjafa. Áherslu verður að leggja á að stórauka hlut stórra og smárra bíla með raforku úr rafgeymum og rafbíla sem ganga fyrir vetni, þar sem við á. Þetta á einnig við um ýmsar vinnuvélar. Samtímis verður að greiða fyrir því að stærri vinnuvélar og stórir bílar geti skipt yfir í innlent metan, metanól og lífdísil.

Hefja skal rafvæðingu hafna svo rafbátar geti sótt sér þar orku en skipum af öllum stærðum verði gert að nýta raforku úr landi í stað orku frá eigin ljósavélum. Nýtt og vistvænt eldsneyti á skipsvélar er í hraðri framþróun, svo sem metan, metanól og etanól, lífdísill og vetni. Íslendingum ber að taka þátt í þróuninni, meðal annars með frekari nýsköpun í framleiðslu þess og notkun. Blöndun vistvænna eldsneytistegunda í flugvélaeldsneyti er þegar hafin og ber að leggja áherslu á að taka þátt í framsæknum orkuskiptum í flugi.

Umræður um að selja orku til útlanda með sæstreng hefur farið fram af og til á undanförnum 20 árum. Skoðaðir hafa verið efnahagslegir og félagslegir kostir og gallar. Ljóst er að sæstrengur er kostnaðarsamt og áhættusamt verkefni, sem myndi setja mikinn þrýsting á íslenska náttúru. Hætt er við að virkja þyrfti hvern einasta foss og jarðhitasvæði og raska þannig verðmætum víðernum til að standa undir kostnaði og til að hámarka arðsemi verkefnisins. Á sama tíma gætu skapast örðugleikar fyrir græna orkufreka starfsemi á Íslandi til að afla sér orku á samkeppnishæfu verði. Enn fremur er enn mikil óvissa um það hvernig þróun tækni tengdri orkuframleiðslu mun fara fram. Á síðustu árum hafa til að mynda hafa stór skref verið tekin í þróun stórra sólorkuvera og vindorkuvera. Tækniþróun getur í framtíðinni gert það að verkum að verð á raforku í gegnum fyrirhugaðan sæstreng á milli Ísland og Bretlands verði ekki lengur samkeppnishæf.

Sanngjarnt orkuverð til heimila og innlends iðnaðar

Við verðlagningu raforku verði heimilum og innlendum atvinnufyrirtækjum tryggt sanngjarnt orkuverð og það markmið sett ofar hagnaðarkröfu orkufyrirtækja. Eigi að síður er mikilvægt að við verðlagningu sé fullt tillit tekið til allra kostnaðarþátta, þar með talið fórnarkostnaðar vegna glataðra náttúruverðmæta og annars umhverfiskostnaðar. Þá má ekki gleyma því að náttúran hefur gildi í sjálfu sér sem erfitt er að meta til króna og aura.

Raforkan, rétt eins og neysluvatn, húshitun og fjarskipti, telst til grunnþarfa í nútímasamfélagi og þessi kerfi á ekki að reka í hagnaðarskyni. Vinstri hreyfingin grænt framboð telur mikilvægt að sameiginlegt eignarhald þjóðarinnar á auðlindum til lands og sjávar verði viðurkennt og að samfélagið í heild njót arðs af sjálfbærri nýtingu þeirra.

Eðlilegt er að virkjanaframkvæmdir yfir 1 MW fari í mat á umhverfisáhrifum. Það viðmið sem nú er stuðst við, 10 MW, er allt of hátt en það býður upp á að framkvæmdaraðilar reisi nokkrar virkjanir í röð, sem allar eru undir viðmiðunum án þess að farið sé í umhverfismat.

Raunhæf orkuspá með tilliti til Parísarsamkomulagsins

Mikilvægt er að setja niður, eins nákvæmlega og unnt er, hver raunveruleg orkuþörf þjóðarinnar verður næstu áratugi. Við þá vinnu þarf sérstaklega að huga að markmiðum um orkuskipti ekki síst í samgöngum og aukinn hlut endurnýjanlegra og innlendra orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis.

Við mat á orkuþörf landamanna þurfa markmið Parísarsamkomulagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og skuldbindingar okkar hvað varðar orkuskipti og umhverfisvænni orkugjafa að vera í fyrirrúmi. Taka þarf tillit til fólksfjölgunar, vaxandi ferðamannafjölda og áhrifa hvoru tveggja á þróun almenna markaðarins. Ennfremur þarf að huga að atvinnuuppbyggingu í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, ekki síst á landsbyggðinni. Þegar þessi þörf hefur verið metin á raunsæjan hátt er fyrst hægt að áætla hve mikillar orku þarf að afla og hvernig það best verður gert. Ábyrg umgengni við auðlindina, betri nýting, almennur orkusparnaður og sparneytnari rafmagnstæki draga úr þörf fyrir frekari orkuöflun.

Sjálfbær orkuöflun í sátt við náttúru landsins

Sjálfbærni verður ætíð að vera leiðarhnoðið þegar kemur að orkuöflun og ríkulegt tillit þarf að taka til náttúruverndar. Þar skiptir verndun hálendisins mestu máli en hún verður best tryggð með heildstæðu skipulagi þar sem áhersla er lögð á friðun stórra landslagsheilda með stofnun Miðhálendisþjóðgarðs. Mikilvægt er að allar virkjunarframkvæmdir, stórar sem smáar, fari í umhverfismat.

Við umgengni og nýtingu á orkuauðlindum þjóðarinnar er mikilvægt að sýna ábyrgð og leggja ber áherslu á félagslegan rekstur en ekki rekstur í hagnaðarskyni. Landsvirkjun á áfram að vera að fullu í opinberri eigu, enda hefur fyrirtækið verið byggt upp með nýtingu á sameiginlegum orkuauðlindum þjóðarinnar.

Ísland er auðugt af endurnýjanlegum orkugjöfum og hefur að því leyti sérstöðu og einstaka möguleika til að uppfylla Parísarsamkomulagið. Mikilvægt er að virkjun jarðvarmans sé sjálfbær en ekki ágeng þannig að jarðhitageymirinn geti áfram þjónað þörfum komandi kynslóða.  Við nýtingu vatnsafls er ekki þörf á að sökkva grónu landi undir miðlunarlón eða þurrka fagra og vatnsmikla fossa á hálendinu. Leita þarf sjálfbærari leiða við nýtingu vatnsaflsins og efla rannsóknir á nýjum orkulindum, svo sem vindorku og djúpvarma. Einnig þarf að huga að nýrri tækni svo sem virkjun sjávarfalla, nýtingu metans og alkóhóls, vetnis og lífdísils.

Orka til allra landsmanna

Allir landsmenn eiga að búa við fullnægjandi afhendingaröryggi. Samræmda skilgreiningu þarf á því hugtaki í lögum og reglugerðum og setja þarf lagaákvæði um ábyrgð orkufyrirtækja til að uppfylla orkuþörf heimila og almennra notenda.

Veikt flutnings- og dreifikerfi stendur atvinnulífi á landsbyggðinni víða fyrir þrifum. Ljóst er að styrkja þarf kerfið til að tryggja afhendingaröryggi heimila og fyrirtækja, en við þær framkvæmdir þarf að meta alla kosti og velja þá lausn sem er í mestri sátt við umhverfið. Sérstaka varúð skal sýna á hálendinu og á vernduðum svæðum.  Loftlínur mega ekki skerða ósnortin víðerni og forðast skal að jarðstrengir fari um viðkvæmar jarðmyndanir, t.d. hraun enda þótt það kunni að hafa aukinn kostnað í för með sér.

Álfheiður Ingadóttir og Orri Páll Jóhannsson

5. Sjávarútvegsmál

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Tillaga að stefnu VG í sjávarútvegsmálum

Virðing, alúð, stöðugleiki – Stefna í sjávarútvegsmálum

Auðlindanýting snýst um virðingu fyrir auðlind, alúð í nýtingu og  stöðugleiki  fyrir þá sem nýta. Auðlindir landsins, sem nýta skal, ber ávallt að nýta af varúð, ábyrgð  og í sátt  við náttúru, samfélag og komandi kynslóðir. Allar  auðlindir, hvort sem er til lands eða sjávar, ættu að vera ævarandi og óframseljanlegar eignir íslensku þjóðarinnar. Þjóðinni ber að njóta arðs af allri auðlindanýtingu. Nýtingin skal byggja á jafnræði til þátttöku, nærast á nýliðun  og vera í stöðugu og gagnkvæmu sambandi við byggðaþróun. Nýting auðlinda skal vera hluti hins græna hagkerfis  og þannig óaðskiljanlegur þáttur alþjóðlegra rannsókna, samvinnu og nýsköpunar, sérstaklega í þágu umhverfisverndar og loftslagsmála.

Umhverfissjónarmið þurfa alltaf að vera í forgrunni þegar kemur að nýtingu auðlinda. Hvað auðlindir sjávar varðar á það ekki einungis við um sjálfbæra nýtingu stofna, heldur einnig veiðar og vinnslu. Súrnun hafs er sívaxandi vandamál sem getur haft óafturkræfar breytingar á lífríki hafsins í för með sér. Mjög mikilvægt er sjávarauðlindir séu nýttar á sem umhverfisvænstan hátt og nýjustu tækni sé beitt við veiðar. Skipta þarf út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orkugjafa og huga að umhverfisvænum veiðarfærum. Í því skyni verða þeir sem auðlindina nýta að búa við nokkurt jafnvægi sem skapar hvata til fjárfestinga í umhverfisvænni tækni.

Markmiðin með góðu kerfi

 • Sátt um kerfi og að það sé réttlátt
 • Arður til þjóðar
 • Sjálfbær nýting – siðferðileg nýting
 • Viðhald byggða
 • Stöðugleiki í rekstri en möguleikar á nýliðun um leið

VG vill að útfærsla á stjórn fiskveiða stýrist af hagsmunum allra byggða í landinu og hafi að leiðarljósi sátt, byggðafestu og atvinnuöryggi. Skapa þarf forsendur í kerfinu fyrir nýliðun, að þeir sem vilja geti sótt sjóinn og byggt upp fyrirtæki í sjávarútvegi í samkeppni við önnur. Stjórn fiskveiða þarf að vera upplýst af bestu fáanlegu þekkingu og niðurstöðum alþjóðlegs vísindastarfs og samvinnu um mat á vistkerfi hafs, sjávarbotns og stranda.

Fiskveiðistjórn

Meginregla í auðlindanýtingu er að þjóðin öll á auðlindir til lands og sjávar og henni ber að greiða afgjald fyrir nýtinguna. Vinstri græn leggja áherslu á afdráttarlaust auðlindaákvæði í stjórnarskrá þar sem eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum er skýrt. VG vill að fyrirtæki sem stunda eldi í sjó greiði fyrir nýtingu sjávar, líkt og um lóðaleigu væri að ræða. VG vill að útgerð greiði veiðigjald sem er fast hlutfall af aflaverðmæti selt úr skipum. Mikilvægt er að við útfærslu á slíku gjaldi komi til þrepaskipting milli ólíkra útgerðarflokka og afkomu eins og við viljum gera í skattkerfinu, þar sem það er ólíku saman að jafna hagkvæmni og hagnaði stórútgerðarinnar og minni útgerða. Verðmyndun á afla mun því óhjákvæmilega taka mið af veiðigjaldi, en þeir sem hyggjast byggja upp greinina og borga sjómönnum góð laun, munu öðlast samkeppnisforskot á aðra. VG vill að arður og atvinna af sjávarútvegi dreifist sem best um samfélagið en lendi ekki í höndum fárra útgerðarrisa sem hugsa bara um stundargróða og láta sér samfélagslega ábyrgð í léttu rúmi liggja eins og mýmörg dæmi sanna. Fyrir utan það að gróðinn lendir oftar en ekki í einhverjum skattaskjólum.

Hver útgerð býr að kvóta sem mælt er fyrir um af Hafrannsóknarstofnun. VG vill innkalla þennan kvóta í skrefum og endurútdeila á grundvelli hagsmuna samfélagsins, byggða í landinu og atvinnu. Endurúthlutun felst í tímabundinni ráðstöfun leyfa og skal að hluta vera bundin uppboði, hluta bundin svæðum landsins, hluta bundin sveitarfélögum og þeim aðilum boðið að skilgreina leiðir til úthlutunar. Innköllun kvóta gæti farið fram á 20 árum, 5% hvert ár af kvóta þess árs sem innköllun hefst. Við endurúthlutun veitir ríkið leyfi þar sem skýrt er kveðið á um eignarhald þjóðarinnar, óframseljanleika kvótans og veiðigjald sem rukkað verður. Að 20 árum liðnum hefst aftur annað tímabil 20 ára innköllunar, sem fer fram með sama sniði. 10% þess kvóta sem innkallaður er hvert ár er tekin til hliðar og settur í byggðapott. Þeim kvóta er útdeilt árlega til 10 ára í senn til þeirra byggða sem metið er af Byggðastofnun að hallast standi. Kvótinn getur komið sem sérstakur byggðakvóti beint til byggðar eða sem mótframlag við landaðan afla í byggð. Allar ráðleggingar um að auka kvóta fara sjálfkrafa í gegnum uppboðsleið ríkis, sem og kvótar um veiðar á nýjum stofnun. Ef veiðiráðgjöf vill draga úr kvóta tegunda, kemur það til frádráttar á eftirstandandi hlut útgerða hverju sinni.

Náttúruvernd

Vistkerfi heimsins, hvort sem er á láði eða legi, einkennast af viðkvæmu jafnvægi sem hefur skapast og viðhaldist jafnvel um þúsundir ára. Áhrif mannsins á þessi vistkerfi eru nú mikil og orðin áþreifanleg á hnattrænan kvarða meðal annars með súrnun sjávar. Þessi áhrif hafa hinsvegar varað stutt og sér ekki fyrir hvernig þau munu leggjast með öðrum ferlum náttúru í að breyta jafnvægi vistkerfa í hafinu. Þannig þarf lykilregla í stjórn fiskveiða að vera virðing fyrir auðlindinni og vistkerfum hafs, sjávarbotns og stranda og varúðarreglan útgangspunktur þeirrar virðingar. Ef við vitum ekki hver möguleg áhrif aðgerða okkar eru að fullu, þá skal sleppa þeim aðgerðum. Næmni fyrir hlutverki okkar í vistkerfi hafsins er annað lykilorð sem VG vill að haft sé í heiðri við stjórn fiskveiða. Aðferðir við veiðar og afli sem við tökum hefur áhrif á hafið, hafsbotninn, samfélög í landi, loftslag og fleira. Með öðrum orðum eru fiskveiðar, s.s. notkun togveiðarfæra og brennsla svartolíu á skipum, hluti hnattræns umhverfis og þarf að skoða og skilja í því ljósi. Stjórn fiskveiða þarf því að vera næm á fleira en niðurstöður ársreikninga einstakra fyrirtækja og skynja ábyrgð sína eftir því.

Loks þarf að verja grunnslóð enn betur fyrir stórskipaflotanum og stórtækum veiðarfærum en nú er gert og skoða kosti þess að draga grunnlínuna í 20 mílur en hún er nú 12 mílur og að fyrir innan hana væru einungis notuð umhverfisvæn veiðarfæri.

Fiskeldi

Í fiskeldi eru miklir vaxtar- og framtíðar möguleikar víða um land. Þeir felast í frekari þróun á umhverfisvænu fiskeldi, eldi sjávardýra og þörungaeldi. Styðja þarf vel við þróunarstarf og rannsóknir og bæta lagaumgjörð og reglur fyrir greinina. Eldi sjávardýra þarf að koma í kjölfar stefnumótunar og regluverks um framkvæmd slíks. Tryggja þarf rétt sveitarfélaga til að skipuleggja haf- og strandsvæði og efnahags- og samfélagsleg áhrif fiskeldis skulu metin á líkan hátt og áhrif á náttúruna. Stjórnvöld ættu að hvetja til framþróunar og nýsköpunar í eldislausnum sem miðar að því að vernda villta stofna og viðkvæma náttúru, ásamt því að hámarka dýravelferð og gæði afurða. Í bleikjueldi hafa verið þróaðir íslenskir eldisstofnar í lokuðu landeldi með góðum árangri. Vaxtar- og framtíðarmöguleikar í laxeldi í góðri sátt við íslenska náttúru og villta stofna með öllum sínum fjölbreytileika, liggja í að sækja fram í landeldi og fylgja eftir hraðri framþróun í notkun lokaðra eldiskvía og meðhöndlun sem kemur í veg fyrir að eldisfiskar geti tímgast eða blandast við villta stofna. Eldi á frjóum fiskum framandi stofna eins og norskum eldislaxi í opnum sjókvíum hér við land felur hins vegar í sér of mikla hættu á óafturkræfum skaða á villtum stofnum.

Vernda verður viðkvæma náttúru fyrir áföllum og skaða sem getur hlotist af óábyrgu fiskeldi. Vernda verður villta stofna íslenskra laxfiska og viðkvæma náttúru fyrir erfðamengun, sjúkdómum, sníkjudýrum og öðrum áföllum sem geta hlotist af því að eldisfiskar sleppi úr haldi eða valdi umhverfi skaða með öðrum hætti. Farsælast til langrar framtíðar er eldi sem helst í hendur við aðra nýtingu, öfluga vöktun, eftirlit og verndun íslenskrar náttúru. Virða þarf rétt náttúrunnar með öllum sínum fjölbreytileika til að þróast áfram á eigin forsendum, byggðum landsins til langtíma hagsbóta.

Edward H. Huijbens og Svandís Svavarsdóttir

6. Vinnumarkaðs- og verkalýðsmál

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Vinnumarkaðs- og verkalýðsmál

 

Vinnumarkaðinn er ekki hægt að skoða án samhengis við það samfélag sem hann er hluti af. Þess vegna verður sterkt velferðarkerfi og góður vinnumarkaður að ganga hönd í hönd enda er gjaldfrjáls menntun barna og gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta kjaramál. Á fyrirmyndar vinnumarkaði geta allir sem hafa til þess heilsu og vilja tekið þátt og borið sanngjarnt endurgjald úr býtum. Réttindi eru virt og misrétti á milli hópa líðst ekki.

 

Samsetning vinnumarkaðarins tekur stöðugum breytingum hvað varðar aldur, menntun, uppruna og starfsgetu og þarfir atvinnulífsins fyrir starfsfólk tekur líka stöðugum breytingum.  Menntunarstig hér á landi er lágt samanborið við önnur Norðurlönd. Með batnandi heilsu eldra fólks þurfa sífellt fleiri með fulla starfsgetu að yfirgefa vinnumarkaðinn sökum aldurs um leið og sífellt fleiri ná ekki að fóta sig á honum sökum veikinda snemma á starfsævinni. Á sama tíma fjölgar þeim sem ekki þekkja vel til réttinda sinna, svo sem innflytjendum og ungu fólki. Of margir atvinnurekendur nýta sér veika stöðu starfsmanna sinna til að hafa af þeim laun og brjóta á réttindum þeirra.

 

Við slíkar aðstæður er hlutverk stéttarfélaga mikilvægara en oft áður. Rétt eins og þau, í upphafi síðustu aldar, tóku þátt í að byggja upp það velferðarsamfélag sem við nú njótum, gegna þau nú mikilvægu hlutverki við að verja það sama velferðarsamfélag og sækja fram. Í okkar ríka samfélagi á það ekki að eiga sér stað að fólk búi við fátækt, neiti sér um heilbrigðisþjónustu eða að börn hætti námi til að aðstoða við að framfleyta fjölskyldunni eða að atvinnurekendur geti brotið réttindi fólks án þess að þurfa að takast á við afleiðingar af því.

 

Það er hlutverk stjórnvalda að skapa umhverfi þar sem heilbrigður vinnumarkaður getur þróast. Það er gert með því að skapa lagaumhverfi sem kemur í veg fyrir mismunun og misnotkun, virku eftirliti og afleiðingum fyrir þá sem brjóta gegn öðrum. Það er einnig gert með því að draga úr kostnaði fólks vegna heilbrigðisþjónustu og menntunar, stuðla að fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu, s.s. sjúkraþjálfa og sálfræðinga, sem dregur úr líkum þess að fólk hrökklist af vinnumarkaði. Laun sem ekki duga til framfærslu eiga ekki að bera tekjuskatt og því er það líka hlutverk stjórnvalda að nýta skattkerfið mun betur til að dreifa byrðum samneyslunnar í samræmi við getu fólks til að leggja af mörkum.

 

Heilbrigði, menntun og lífsgæði

Góður vinnumarkaður er sveigjanlegur, öruggur og fólk hefur tækifæri til að njóta sín bæði í starfi og frístundum. Við viljum:

 • Sterkt velferðarkerfi sem býður menntun og heilbrigðisþjónustu notendum að kostnaðarlausu.
 • Stórauka menntun í iðn- og tæknigreinum til að búa fólk undir breyttan vinnumarkað. Hið opinbera sjái um og beri ábyrgð á allri menntun sem krafist er til tiltekinna starfa.
 • Afnema aldurstakmörk á framhaldsskólastigi.
 • Stytta vinnudaginn í sex stundir.
 • Tryggja grundvallarfræðslu um vinnumarkaðinn undir lok grunnskólamenntunar.
 • Að sjóðir sem vinnandi fólk byggir upp til að auka lífsgæði sín valdi ekki skerðingu á opinberri aðstoð.
 • Brjóta upp hinn kynskipta vinnumarkað og útrýma launamuni kynjanna.

 

Lagaumhverfi og ábyrgð

Ábyrgð stjórnvalda á heilbrigðum vinnumarkaði er mikil og krefst sterkra laga og stofnana til að hafa eftirlit og tryggja réttindi vinnandi fólks. Við viljum:

 • Innleiða keðjuábyrgð í lög í öllum atvinnugreinum.
 • Stórefla stofnanir svo sem Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun, löggæslu og félagsþjónustu til að taka á félagslegum undirboðum í samráði við stéttarfélög.
 • Innleiða raunverulega samfélagslega ábyrgð í opinberum innkaupum hvort sem keypt er þjónusta hér á landi eða erlendis.
 • Fyrirtæki og stofnanir geri grein fyrir launamuni innan hverrar einingar og að ásættanlegur launamunur verði skilgreindur.
 • Gera launastuld refsiverðan og takmarka möguleika atvinnurekenda til að stunda kennitöluflakk.
 • Skattleysismörk miðist við lágmarksframfærslu.

 

Stéttarfélög og samningagerð

Stéttarfélög eru sterkasta afl vinnandi fólks til að sækja fram og verja réttindi. Samskipti hins opinbera við stéttarfélög eiga að byggja á sjálfræði félaganna sem lýðræðislegs vettvangs. Við viljum:

 • Þétta samstarf hins opinbera við stéttarfélög með formlegum samráðsvettvangi í aðdraganda fjárlagagerðar.
 • Að launaleynd verði með öllu afnumin.
 • Ná sátt milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um framtíðarskipan kjaramála þar sem tekið er mið af velferðarþjónustu, grunnframfærsla tryggð, unnið gegn misrétti og sameiginlegir sjóðir nýttir til aukinna lífsgæða fyrir alla.
 • Tryggja fullnægjandi upplýsingar um íslenskan vinnumarkað til þeirra sem koma erlendis frá að vinna á Íslandi.

 

Að vinna gegn misskiptingu á vinnumarkaði er hin eilífa áskorun. Misskiptingin felst bæði í auknum tekjumuni á milli þeirra sem bera mest úr býtum og þeirra sem vinna á lágmarkslaunum en ekki síður á milli kynja og fólks sem kemur erlendis frá að vinna hér á landi. Þá verður hinn íslenski vinnumarkaður ekki slitin frá hinum alþjóðlega vinnumarkaði og ábyrgð okkar hérlendis ekki slitin frá sanngirni í alþjóðavæddum heimi.

 

Barátta vinnandi stétta fyrir sanngjörnum launum fyrir vinnuframlag er jafn brýn nú á dögum og áður. Baráttan er alþjóðleg og snýst um að draga úr misskiptingu og að arðurinn af vinnunni berist í vasa þeirra sem skapa arðinn. Vinnumarkaðurinn hér á landi og alls staðar annars staðar hefur tekið miklum breytingum síðustu áratugi og í augsýn er frekari bylting í tækniframförum. Hætt er við að sú bylting beri í skauti sér dvínandi öryggi fyrir vinnandi fólk og lakari kjör þar sem baráttan um vinnu verður harðari og samkeppnin leiðir til lægri launa. Það hefur því sjaldan verið jafn mikilvægt að vernda grunnstoðir íslensks vinnumarkaðar þar sem félagsleg undirboð eru ólögleg og efla stéttarfélög og tengja þau hefðbundinni stjórnmálabaráttu.

Drífa Snædal og Torfi Stefán Jónsson

7. Tillaga að viðauka við lýðræðis- og mannréttindastefnu VG

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

1. Í inngangi á eftir „… móta bæði samfélagið og eigið líf“ bætist eftirfarandi:

Grundvallarforsendan til að það gangi upp er að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs-, stjórnmálaskoðana, trúleysis, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu.

2. Í næstu málsgrein eftir „Sérstaklega þarf að huga að valdeflingu minnihlutahópa og þeirra sem hafa veika stöðu í samfélaginu og tryggja þeim viðeigandi aðstoð“ bætist við:

„… og aðkomu að umræðu og ákvarðanatöku. Tryggja þarf fólki tíma til þátttöku með auknum sveigjanleika í samfélaginu og á vinnumarkaði s.s. með styttingu vinnudags, með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum og markvissri vinnu gegn staðalímyndum um kynjaða hlutverkaskiptingu í því sem snýr að fjölskylduábyrgð. og virða mannréttindi þess. Valdafyrirkomulag án tækifæra almennings til aðkomu almennings hefur fest sig í sessi í nafni lýðræðis.“

Við þá breytingu fellur eftirfarandi út: „Tryggja þarf fólki tíma til þátttöku og virða mannréttindi þess. Valdafyrirkomulag án aðkomu almennings hefur fest sig í sessi í nafni lýðræðis.“

3. Í lok stefnunnar bætist við nýr undirkafli sem hljóðar svo:

d) Lýðræðislegt samfélag rúmar okkur öll

Til að lýðræðið nái að blómstra er nauðsynlegt að hvetja til og tryggja aðkomu allra sem vilja að  umræðu og ákvarðanatök. Þar ber sérstaklega að huga að minnihluta og jaðarhópum án þess að ætla að allir sem tilheyra ákveðnum hópi skilgreini sig eins eða hafi sömu skoðanir.

Nauðsynlegt er að tryggja:

 • Jafna þátttöku og áhrifa kvenna, karla, fólks af öðrum kynjum og þeim er ekki skilgreina kyn sitt. Einnig bera að huga að þátttöku fatlaðs fólks og tryggja þeim aðstæður til að taka virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Það sama á við um
 • Að fötluðu fólki séu tryggðar aðstæður til að taka virkan þátt í samfélaginu og framlag allra sé metið að verðleikum. Vinstrihreyfingin grænt framboð telur að þau viðhorf sem ríkja í samfélaginu geti oft vegið þyngra í að koma í veg fyrir virka samfélagsþátttöku margra frekar en fötlun eða skerðing af einhverju tagi.
 • Rétt barna til að mynda sér skoðanir og aðkomu að ákvarðanatöku um málefni sem þau varðar. Einnig bera að tryggja að komu eldra fólks að umræðu og ákvarðanatöku þó varast beri að líta svo á að allir séu eins þó þeir tilheyri ákveðnu aldursskeiði.
 • Að mismunun vegna holdafars, útlits eða líkamsgerðar verði upprætt. Framlag hvers og eins skal metið að verðleikum án tillits til hæðar, þyngdar eða útlits.
 • Að ekki sé mismunað vegna kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Samfélagið og stjórnvöld þurfa að fara að horfast í augu við að allt fólk er ekki gagnkynhneigt og sís-kynja
 • Jafnan rétt óháð trúar-, lífs- og stjórnmálaskoðana eða trúleysi.
 • Að ekki sé mismunað eftir uppruna, litarháttar, þjóðernis, menningarlegs bakgrunns eða annarrar flokkunar sem byggð er á kynþáttahyggju.
 • Rétt allra til að búa við frið og öryggi.

Fyrir hönd málefnahóps um alþjóða- og lýðræðismál
Auður Lilja Erlingsdóttir og Daníel E. Arnarsson