1. Ályktun um kolefnishlutleysi 2040

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Ísland þarf að taka mið af niðurstöðum vísindamanna og setja stefnuna á að verða kolefnishlutlaust árið 2040.

 • Draga þarf úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það gerum við með því að hverfa frá olíuvinnslu, skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum og iðnaði.
 • Ísland á að beita sér fyrir því að jarðefnaeldsneyti verði ekki unnið á Norðurslóðum.
 • Íslandi ber að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, einnig frá stóriðju, og binda kolefni með ýmsum mótvægisaðgerðum.
 • Ísland beiti sér fyrir því að losun gróðurhúslofttegunda frá flugi og skipum verið talið með í losunarbókhaldi þjóða.
 • Skipuleggja þarf þéttbýli þannig að almenningssamgöngur, hjólreiðar og ganga verði raunhæfir valkostir.
 • Beita þarf hagrænum hvötum, svo sem kolefnisskatti, og byggja upp innviði til að græn samgöngutæki verði hagkvæmasti kosturinn.
 • Skylda þarf stór og meðalstór fyrirtæki til að vera með kolefnisbókhald.
 • Ávallt þarf að meta kolefnislosun aðgerða og samninga ríkisins, til að mynda við gerð búvörusamninga.

Ísland á jafnframt að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 2°C. Tryggja þarf viðbúnað vegna þeirra breytinga sem þegar eru hafnar í vistkerfinu og eru óumflýjanlegar og styrkja þarf fátækari þjóðir til að minnka losun og byggja upp viðnámsþrótt.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

2. Ályktun um kolefnisskatt

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Sérstakur skattur á kolefni er mikilvægt tæki til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda sem fyrst. Með nægilega háum kolefnisskatti er hægt að beina neyslu í átt að vörum með lítið kolefnisfótspor. Með því að skattleggja kolefni er einnig skapaður hvati fyrir fyrirtæki til að finna leiðir til þess að minnka losun á kolefni á öllum stigum framleiðslu, sem mun draga úr mengun.

Með því að láta notendur borga fyrir kolefni er raunverulegur kostnaður við loftslagsbreytingar limaður inn í hagkerfið og kostnaðurinn verður hlutfallslegur, þ.e. þeir sem menga meira borga meira.

Skattinn má til dæmis innheimta á smásölustigi. Þar er þegar skatttekja svo það mun ekki verða mikill umsýslukostnaður við skattlagninguna, hann bætist einfaldlega ofan á aðra skatta og gjöld.

Kolefnisskattur leggst þyngra á efnaminni og þá sem búa úti á landi þar sem almenningssamgöngur eru verri og þurfa því að treysta á einkabíla. Því er mikilvægt að leiðrétta fyrir því með mótvægisaðgerðum þeim til handa.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

3. Ályktun um kolefnisbindingu

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur VG skorar á alla hlutaðeigandi að efla mjög bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu með ýmsum aðgerðum í náttúru landsins. Með því aukum við framlag Íslands í andófinu gegn hlýnun jarðar umfram skuldbindingar okkar í Parísarsamkomulaginu en þær snúa að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Með þessu móti gerum við líka Ísland byggilegra en ella og eflum fjölbreytt vistkerfi sem gæða landið.

Hvatt er til þess að beitt verði ólíkum aðferðum við að binda kolefni í gróðri og að ávallt sé stuðst við bestu fáanlegar upplýsingar um ástand jarðvegshulu, mismunandi bindigetu plantna og ólíkar aðgerðir. Ríkisstofnanir, sveitarfélög, fyrirtæki, bændur, áhugamannafélög og almenningur verða, sem gerendur, að efla samvinnu um aukna trjárækt, endurheimt lággróðurs á örfoka svæðum – og svæðum með skaddaðri jarðvegshulu – og auka endurheimt votlendis á ónýttum, framræstum svæðum.

Um þessar mundir ætti að vera unnt að binda árlega um eina milljón tonna af kolefni í gróðri, að gefnu miklu öflugri opinberum stuðningi en fæst hjá ríkisstjórn hægriaflanna. Á næstu 2–3 áratugum er svo raunhæft að auka bindinguna upp í 2,2–4,3 milljónir tonna á ári að mati sérfræðinga Landbúnaðarháskólans. Það samsvarar næstum allri árlegri losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi að frátalinni losun orkufreks iðnaðar og í flugsamgöngum. Meðal leiða til fjármögnunar má nefna hækkun kolefnisskatts á eldsneyti og iðnaðarferla en takmark kolefnisbindingar og samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda er kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

4. Ályktun um orkuskipti í samgöngum og bættar almenningssamgöngur

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur VG ítrekar að bættar almenningssamgöngur og orkuskipti í samgöngum er einn mikilvægasti áfanginn á leið Íslands til að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins.

Framþróun í vistvænum samgöngum á Íslandi til 2030 fer farsællegast fram með því að gera almenningssamgöngur að raunhæfum valkosti fyrir flesta, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli, og nýta fjölbreytta orkugjafa. Áherslu verður að leggja á að stórauka hlut stórra og smárra bíla með raforku úr rafgeymum og rafbíla sem ganga fyrir vetni, þar sem við á. Þetta á einnig við um ýmsar vinnuvélar. Samtímis verður að greiða fyrir því að stærri vinnuvélar og stórir bílar geti skipt yfir í innlent metan, metanól og lífdísil.

Hefja skal rafvæðingu hafna svo rafbátar geti sótt sér þar orku en skipum af öllum stærðum verði gert að nýta raforku úr landi í stað orku frá eigin ljósvélum. Nýtt og vistvænt eldsneyti á skipsvélar er í hraðri framþróun, svo sem metan, metanól og etanól, lífdísill og vetni. Íslendingum ber að taka þátt í þróuninni, meðal annars með frekari nýsköpun í framleiðslu þess og notkun. Blöndun vistvænna eldsneytistegunda í flugvélaeldsneyti er þegar hafin og ber að leggja áherslu á að taka þátt í framsæknum orkuskiptum í flugi.

Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er alls ekki nægu fjármagni beint til orkuskipta eða mótvægisaðgerða gegn loftslagshlýnun. Það er deginum ljósara að 1,6 milljarða kr. viðbót til umhverfismála í heild á þremur af fimm árum áætlunarinnar, að frádregnum byggingarkostnaði gestastofa og fleiri bygginga, dugar hvergi nærri til. Í ofanálag á að skera niður framlög til umhverfismála um 300 milljón kr. á ári í tvö ár. Til nýsköpunar reiknast um 120 milljón kr. viðbótarframlög á ári að meðaltali í fimm ár og orkuskipti fá um 70 milljón kr. framlag í þrjú ár.

Félagshyggjuöfl landsins verða að taka forystu í orkuskiptum samgangna í samvinnu við sérfræðinga og annað áhugafólk um stórátak í þeim efnum.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

5. Ályktun um raforkusamninga til stóriðju

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur VG telur tímabært að hefja endurskoðun raforkusamninga til stóriðju til framtíðar, með því markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, fækka mengandi stóriðjuverum, auka fjölbreytni í iðnaði og fjölga í hópi „grænna“ fyrirtækja sem nota raforku á Íslandi.

Orkuspárnefnd hefur reiknað að á næstu 30 árum muni almennur iðnaður og þjónusta þurfa 600 MW orku til viðbótar við það sem nú er. Á sama tímabili munu raforkusamningar til stóriðju fyrir sama magn renna út.

Landsfundur VG telur mikilvægt að rannsaka ítarlega allar efnahagslegar, samfélagslegar og umhverfislegar hliðar raforkusamninga, sem og möguleika til þess að færa 600 MW af orku úr stóriðju í almennan iðnað og þjónustu, og forðast þannig að byggja frekari virkjanir.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

6. Ályktun um að hætt verði við áform um að selja orku til útlanda með sæstreng

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Umræður um að selja orku til útlanda með sæstreng hefur farið fram af og til á undanförnum 20 árum. Skoðaðir hafa verið efnahagslegir og félagslegir kostir og gallar.

Landsfundur VG telur sæstreng kostnaðarsamt og áhættusamt verkefni, sem myndi setja mikinn þrýsting á íslenska náttúru. Við óttumst að ef slíkur strengur yrði lagður myndi þurfa að virkja hvern einasta foss og jarðhitasvæði til að standa undir kostnaði og til að hámarka arðsemi verkefnisins. Á sama tíma gætu skapast örðugleikar fyrir græna orkufreka starfsemi á Íslandi til að afla sér orku á samkeppnishæfu verði. Enn fremur er enn mikil óvissa um það hvernig þróun tækni tengdri orkuframleiðslu mun fara fram. Á síðustu árum hafa til að mynda stór skref verið tekin í þróun stórra sólorkuvera og vindorkuvera. Tækniþróun getur í framtíðinni gert það að verkum að verð á raforku í gegnum fyrirhugaðan sæstreng á milli Íslands og Bretlands verði ekki lengur samkeppnishæf.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

7. Ályktun um að draga úr neyslu

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Náttúrunni og samfélaginu öllu stafar ógn af neysluhyggju. Núverandi neysluhættir og framleiðsla útheimtir gríðarlegt magn af peningum, orku og hráefni. Framleiðslan gengur á dýrmætar auðlindir, veldur loftslagsbreytingum, mengar náttúruna og er oft á kostnað mannréttinda og heilsu verkafólks.

Til að tryggja möguleika okkar á framtíð hér á jörðu er mikilvægt að draga úr neyslu og hætta að nota fyrirbæri á borð við neysluvísitölu til þess að mæla velmegun.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

8. Ályktun um að útrýma plastmengun á Íslandi

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Á undanförnum árum hefur plastnotkun stóraukist. Afleiðingar plastmengunar fyrir náttúru og heilsu fólks eru verulegar og niðurstöður rannsókna á plastmengun verða ískyggilegri.

Landsfundur VG ítrekar stefnu sína gegn plastnoktun. Lagt er til að plastpokar verði bannaðir á Íslandi og að mun strangari reglur verði settar um notkun plastumbúða. Skoða má harðari viðurlög við því að henda rusli á víðavangi. Þá þarf einnig að stórbæta fráveitukerfi Íslands þannig að plast og jafnvel örplast rati ekki lengur til sjávar.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

9. Ályktun um fráveitumál

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur VG telur að brýnt sé að bæta hreinsibúnað frárennslisstöðva á öllu landinu. Það er mikilvægt að bæta síur og skólphreinsibúnað verulega til að koma í veg fyrir örplastsmengun sem hefur gríðarlega neikvæð umhverfisáhrif.

Plastagnir frá hjólbörðum eru líklega langstærstu hluti örplastsmengunar og því er mikilvægt að bæta einnig meðhöndlun og hreinsun ofanvatns, til dæmis með blágrænum lausnum og settjörnum til hreinsunar afrennslis af stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins.

Ríkið þarf að koma til móts við fámenn sveitarfélög og aðstoða þau sé þess þurfi.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

10. Ályktun um minnkun matarsóunar

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Matvælaframleiðsla felur í sér notkun á auðlindum jarðar, og þær eru takmarkaðar. Því er nauðsynlegt að nýta þær skynsamlega. Um þessar mundir er talið að um þriðjungur matvæla fari beint í ruslið.

Til að minnka matarsóun má:

 • Auka til muna innlenda matvælaframleiðslu, því mikið af mat skemmist í flutningum
 • Banna stórmörkuðum að henda mat, sem hefur t.d. verið gert í Frakklandi
 • Efla fræðslu um matarsóun, bæði í skólum og stofnunum
 • Setja sérstök gjöld á fyrirtæki sem henda mikið af mat

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

11. Ályktun um eflingu ylræktar og lífræns landbúnaðar

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur VG telur mikilvægt að bæta verulega ívilnanir miðaðar að því að stórefla lífræna ylræktun á Íslandi. Efling ylræktunar er ekki einungis mikilvæg fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar, heldur myndi hún bæta gæði afurðar og minnka verulega þá mengun sem innflutningur vara til Íslands felur í sér.

Æskilegt er að við nýtum þá orku sem við búum yfir, bæði jarðhita og raforku, fyrir ylræktun og almennt sjálfbærari landbúnað. Þá er mikilvægt að auka neyslu á grænmeti og minnka framleiðslu og innflutning á kjöti, sem er orku- og auðlindafrekt í framleiðslu og hefur þar af leiðandi mikil umhverfisáhrif.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

12. Ályktun um stofnun fræbanka á Íslandi

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur VG telur að koma þurfi á fót fræbanka á Íslandi með þeim nytjajurtum sem ræktaðar eru hérlendis.

Slíkur fræbanki er nauðsynlegur til að tryggja fæðuöryggi Íslendinga gagnvart náttúruhamförum, mögulegu hruni vistkerfa af völdum loftslagsbreytinga, landnámi nýrra tegunda og smitsjúkdóma í plöntum og möguleikanum á því að innflutningur á matvælum og sáðfræi geti raskast til lengri tíma.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

13. Ályktun um umhverfisálag í ferðaþjónustu

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur VG áréttar að farsæl ferðaþjónusta verður að vera rekin á grunni sjálfbærni. Enn vantar nokkuð á og mikilvægt er að ná þar hratt fullnægjandi árangri, meðal annars með því að lina álag á umhverfið og aðlaga ferðaþjónustu að þolmörkum náttúru, samfélaga og margþætts atvinnulífs. Viðmið þolmarka er ávallt þríþætt sjálfbærni; í ljósi náttúru, samfélags og efnahagsmála.

Gríðarhröð fjölgun ferðamanna, hörð, stjórnlítil samkeppni og sein viðbrögð hins opinbera hafa framkallað misvægi álags á umhverfi og samfélög. Víða má auka móttöku ferðmanna en annars staðar þarf að kanna hvernig stýra megi álaginu og að hvaða marki. Í báðum tilvikum verður að bæta innviði og miða uppbyggingu, eða samdrátt, við sjálfbærni. Hún getur líka sett skorður við þann heildarfjölda ferðamanna sem íslenskt samfélag og náttúra geta tekið við, svo vel sé. Þá greiningu og umræður í átt til almenns samkomulags verður að hefja sem allra fyrst.

Landsfundurinn hvetur til aukinnar umræðu um þessi efni, til endurskoðunar á skiptingu tekna af ferðaþjónustu milli ríkis og sveitarfélaga og til aukinna fjárveitinga vegna uppbyggingar innviða í þjóðgörðum og á friðuðum svæðum, þar sem þeirra er þörf. Enn fremur er hvatt til álagsstýringar á fjölsóttum stöðum í samvinnu við fyrirtæki í ferðaþjónustu, landeigendur, sveitarfélög, ríkisstofnanir og umhverfisverndarsamtök.

Einn lykill að bættri umgengi við landið er öflug landvarsla og þróttmikið fræðslustarf. Menntun leiðsögumanna og landvarða skipar þar háan sess.

Almenningsfræðsla og fræðsla ferðamanna sömuleiðis. Mikilvægast er þó að fjölga landvörðum og bæta starfsaðstöðu þeirra ásamt því að kanna hvort hóflegur hluti þess hóps eigi ekki að vera með menntun og starfsréttindi lögreglumanna samhliða landvarðaréttindum.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

14. Ályktun um friðlýsingu, vöktun og stjórnun náttúruverndarsvæða

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur VG ítrekar stefnu sína um verndun íslenskrar náttúru. Það felur í sér að friðlýsa, að vakta og rannsaka, að fræða almenning, og að stjórna verndarsvæðum á viðeigandi hátt. Samkvæmt náttúruverndarlögum ber Íslandi að endurskoða Náttúruminjaskrá (C hluta) og framkvæmdaráætlun hennar (B hluta). Mikilvægt er að halda áfram að friðlýsa vistgerðir, jarðminjar, óbyggð víðerni og landslög, til að tryggja að sérstaða náttúru Íslands njóti verndar.

Landsfundur VG telur mikilvægt er að friðlýsa hálendið í heild sem verndarsvæði, stofna þjóðgarða á Vestfjörðum/Breiðafirði og bæta við tugum annarra tegunda friðlýstra svæða. Íslandi ber að styrkja stjórnun náttúruverndarsvæða með því að bæta landvörslu og fjölga sérfræðistörfum tengdum náttúruvernd, bæði hjá stofnunum og hjá sveitarfélögum. Vöktun og rannsóknir sem stuðla að náttúruvernd þarf að styrkja til framtíðar og efla þarf tengsl á milli umhverfismála og menntunar til að tryggja viðeigandi fræðslu og þekkingu á náttúruvernd.

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

15. Ályktun um að standa vörð um víðsýni á Íslandi.

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Til að stuðla að verndun hinnar náttúrulegu víðsýni á Íslandi, sem er hluti af jarðfræðilegri fjölbreytni landsins, ber okkur að varðveita skipulega heildarmynd landslags (óbyggðir, víðerni, vatnsfarvegi, fossa og stöðuvötn, strendur, fjöll og dali). Það á sérstaklega við um svæði sem eru sérstæð, fágæt eða sérlega verðmæt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis.

Til að tryggja viðeigandi verndun víðsýnis Íslands telur Landsfundur VG mikilvægt að draga úr „landtöku“, þ.a.s. tapi á náttúrulegum svæðum vegna iðnaðar, landbúnaðar, orkuiðnaðar, vegakerfis, afþreyingariðnaðar (sumarbústaðir, golfvellir) og hafnarsvæða*. Staðfesta þarf evrópskan sáttmála um verndun landslags og framfylgja þarf íslenskum náttúruverndarlögum hvað varðar verndun landslags.

[*Land take á ensku: sjá lýsing frá EEA https://www.eea.europa.eu/data-and-maps/indicators/land-take]

Fyrir hönd málefnahóps um umhverfismál,
Einar Bergmundur, René Biasone og Hildur Knútsdóttir

16. Ályktun um mengandi stóriðju í Helguvík

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur VG er mótfallinn mengandi stóriðju í Helguvík og krefst þess hún verði stöðvuð.

Kominn er tími til að harmsaga United Silicon taki enda og að íbúar í nágrenni verksmiðjunnar njóti vafans. Nú hefur einn ofn verið gangsettur og fram að þessu hefur fyrirtækið ekki ráðið við að það verkefni með afleiðingum sem íbúar líða fyrir. Mengun frá kísilveri United Silicon hefur haft neikvæðar afleiðingar á heilsufar og lífsgæði fjölda bæjarbúa í Reykjanesbæ. Fjölmargir hafa veikst, fólk getur ekki verið utandyra og ekki haft opna glugga á heimilum sínum. Fyrirhugaðar framkvæmdir við kísilver Thorsil munu auka á það fordæmalausa ástand sem ríkir nú þegar í Reykjanesbæ. Telur landsfundurinn að hér sé um brot á mannréttindum að ræða þar sem hagsmunir mengandi stóriðju eru teknir fram yfir hagsmuni íbúa á svæðinu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun verja hagsmuni íbúa á svæðinu og tryggja öryggi og velferð þeirra með því að berjast gegn og stöðva alla mengandi stóriðju í Helguvík.

VG á Suðurnesjum

17. Ályktun um mengun frá skipum og umferð um hafsvæði

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Fundurinn skorar á íslensk stjórnvöld að taka tafarlaust upp samskonar reglur og gilda í Norðursjó og Eystrasalti um útblástur skipa á hafsvæðinu umhverfis landið. Það þarf að innleiða viðauka VI í MARPOL samningnum og fylgja honum eftir með skilgreiningu ECA (Emission control area) svæðis. Íslendingar eiga að stilla sér upp meðal fremstu þjóða við Norður Atlantshaf um að draga úr mengun af öllu tagi um allt Atlantshafið. Þannig sýnum við í verki náttúruvernd á viðkvæmu lífríki Norðurslóða.

Stjórn svæðisfélags VG á Akureyri,
Sóley Björk Stefánsdóttir og Edward H. Huijbens

18. Ályktun um bann við plastögnum í snyrtivörum

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Fundurinn skorar á Alþingi að beita sér fyrir banni á notkun plastagna í snyrti- og hreinlætisvörum. Örplast brotnar ekki niður í náttúrunni og getur flutt með sér eiturefni upp fæðukeðjuna. Örplast er mikið notað í andlitsskrúbba, tannkrem, þvottaefni o.fl., þrátt fyrir að til séu náttúruleg efni sem gera sama gagn. Þetta plast á greiða leið til sjávar úr niðurföllum á heimilum, þar sem skólphreinsistöðvar ná ekki að sía það frá.

Stjórn svæðisfélags VG á Akureyri,
Sóley Björk Stefánsdóttir og Edward H. Huijbens

19. Ályktun um rétt barnsins og kynjakerfið

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur áherslu á að uppbrot kynjakerfisins er grundvallarþáttur þegar kemur að stöðu og tækifærum barna. Réttur barna til samveru með báðum foreldrum skal ávallt virtur og leggja þarf sérstaka áherslu á úrræði sem hafa þau réttindi í forgrunni.

Lengja þarf fæðingarorlof foreldra og hækka þarf greiðslur úr fæðingarorlofssjóði þannig að ung börn eigi frekari kost á að njóta samvista við foreldra í frumæsku.

Upphæð fæðingarorlofs og fæðingarstyrks má ekki vera hamlandi fyrir annað kynið eða sérstaka þjóðfélagshópa, s.s. námsfólk.

Leggja þarf áherslu á úrbætur í lögheimilismálum barna þannig að ákvarðanataka og bótaréttur verði sem mest í höndum beggja foreldra en ekki eingöngu þess sem hefur sama lögheimili og börnin. Leggja ber áherslu á stuðning við börn og foreldra þeirra í því skyni að ná sátt um fyrirkomulag umgengni og samvista eins og nokkurs er kostur. Þannig má minnka líkur á árekstrum og valdbeitingu sem koma niður á lífsgæðum barna og samvistum þeirra við báða foreldra.

Heimildir og úrræði barnaverndaryfirvalda þarf að styrkja og efla þarf ráðgjöf í stað þess að áhersla sé á  þvingunarúrræði og að taka börn af foreldrum. Brýnt er að kalla saman fagaðila að borðinu til þess að finna leið til þess að bregðast við.

Fyrir hönd málefnahóps um jafnréttismál,
Gestur Svavarsson og Andrea Hjálmsdóttir

20. Ályktun um meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur áherslu á mikilvægi þess að gerð verði heildarúttekt á stöðu kynferðisbrota í réttarkerfinu öllu. Sérstaklega verði horft til stöðu þolenda kynferðisbrota, þeirra sem verða fyrir eltihrellum og þolenda stafræns kynferðisofbeldis. Auka þarf fræðslu og endurmenntun á öllum sviðum samfélagsins en ekki síst í réttarkerfinu, á rannsóknarstigi, ákærustig og dómsstigi. Nauðsynlegt er ráðast í lagabreytingar en ekki síður að breyta þeirri menningu sem umlykur málaflokkinn og endurspeglar djúpstætt skilningsleysi á alvarleika umræddra brota.

Fyrir hönd málefnahóps um jafnréttismál,
Gestur Svavarsson og Andrea Hjálmsdóttir

21. Ályktun um jafnréttisstarf sveitarfélaga

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir yfir áhyggjum af bakslagi sem hefur orðið í jafnréttisstarfi sveitarfélaga, sem lýsir sér í því að jafnréttisnefndir hafa verið sameinaðar öðrum og jafnréttisfulltrúastöður lagðar af. Brýnt er að sveitarfélög fari að lögum í þessum efnum.

Landsfundur undirstrikar mikilvægi þess að sveitarfélög vinni eftir jafnréttisstefnu í samræmi við lög. Stórátaks er þörfum í eftirfylgni í samræmi við jafnréttisáætlanir sveitarfélaga og ljóst má vera að þegar jafnréttisstefna er samþykkt án framkvæmdaáætlunar þá minnka líkur á eftirfylgni til muna og stefnan verður skrautplagg eitt. Þá er nauðsynlegt að sveitafélögin sjái til þess að fjármagn fylgi áætluðum framkvæmdum vegna stefnunnar til að þau geti orðið að veruleika. Öll málefni sveitarfélaga  sem lúta að kynjajafnrétti og alla ákvarðanatöku þarf að skoða vandlega út frá kynjasjónarhorni. Hér er mikilvægi þess að jafnréttismat fari fram á öllum stjórnsýsluaðgerðum undirstrikað, hvort sem um er að ræða til að mynda lagasetningar, þjónustu, framkvæmdir eða skipulagsbreytingar.

Fyrir hönd málefnahóps um jafnréttismál,
Gestur Svavarsson og Andrea Hjálmsdóttir

22. Ályktun um ofbeldi í nánum samböndum

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs undirstrikar að ofbeldi í nánum samböndum er grafalvarlegt samfélagsmein. Útrýma þarf hverskyns birtingarmyndum af slíku ofbeldi og kynbundnu ofbeldi með samhentu átaki sem felst meðal annars í því að leggja aukna áherslu á forvarnir og fræðslu sem víðast í samfélaginu. Mikilvægt er að heimilisofbeldi verði ekki lengur álitið fjölskyldumálefni einstaklinga, heldur vandi samfélags sem feli í sér skyldur og ábyrgð stjórnvalda sem miklu skiptir að axla.

Í þessu skyni þarf einnig að fullgilda Istanbúl-samninginn, samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, en samningurinn var undirritaður af fulltrúum Íslands 2011.

Fræðsla um ofbeldi og samskipti í nánum samböndum sem byggir á umfjöllun um tilfinningar, nánd, mörk og samþykki er bráðnauðsynleg ekki síst á grunn- og framhaldskólastigi sem mikilvægt skref í átt að auknu jafnrétti og félagslegu réttlæti.

Fyrir hönd málefnahóps um jafnréttismál,
Gestur Svavarsson og Andrea Hjálmsdóttir

23. Ályktun um launajafnrétti

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur á það áherslu að jafnlaunavottun sú sem samþykkt var á Alþingi í vor er ekki allsherjarlausn á þeim vanda sem endurspeglast í launamisrétti kynjanna. Til að ráðast að rótum vandans þarf að grípa til frekari aðgerða. Jafnlaunavottunin tryggir bara ákveðin gæði og jafnræði við launaákvarðanir. Til að stuðla að því að útrýma launamun kynjanna þarf að vinna á því sem skiptir mestu máli; að uppræta kynskiptan vinnumarkað og að kvennastörf séu metin minna en hefðbundin karlastörf. Auk þess tekur jafnlaunavottunin ekki á stéttaskiptingu og stigveldi á vinnumarkaði, viðhorfum og vinnumenningu og kynjuðu menntakerfi.

Fyrir hönd málefnahóps um jafnréttismál,
Gestur Svavarsson og Andrea Hjálmsdóttir

24. Ályktun um uppreist æru

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, mælist til þess að lög um uppreist æru verði endurskoðuð. Lögin þjóna hagsmunum ofbeldismanna og gera lítið úr því sem brotaþolar hafa þurft að ganga í gegn um. Mál tveggja níðinga sem hafa komið í dagsljósið á undanförnum misserum hafa leitt í ljós að lögin eru í engum takti við skilning samfélagsins á óflekkuðu mannorði og eru því meingölluð. Brotaþolar eiga rétt á því að gerandi taki afleiðingum gjörða sinna og sé ekki fríaður samfélagslegri ábyrgð á þennan hátt.

Framkvæmdastjórn UVG

25. Ályktun um Konur þurfa bara að vera duglegri

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, fagnar þeirri auknu umræðu um kynjamisrétti sem sprottið hefur af ýmiskonar framtaki líkt og KÞBAVD. Mikilvægt er að uppræta allt kynjamisrétti, og það hefur sýnt sig og sannað að aukin umræða hefur skilað miklum árangri í vitundarvakningu í gegnum tíðina. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fagnar því einnig að lög um jafnlaunavottun hafi verið samþykkt, en telja jafnframt að það þurfi að ganga mun lengra til þess að ná fram raunverulegu jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. T.a.m. tekur jafnlaunavottunin ekki á kynjaskiptum vinnumarkaði þar sem störf þar sem konur eru meirihluti eru að jafnaði verr launuð heldur en störf þar sem karlar eru í meirihluta, og grípa þarf til aðgerða til þess að breyta því.

Framkvæmdastjórn UVG

26. Ályktun um afstöðu Íslands til kjarnorkuafvopnunar

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ályktar að Ísland gerist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Samningur þessi, sem er niðurstaða viðræðna 124 þjóða, mun væntanlega skipa sér í hóp mikilvægustu afvopnunarsamninga sögunnar, á borð við sáttmála sem banna jarðsprengjur, efnavopn og líftæknivopn.

Illu heilli kaus Ísland að taka ekki þátt í undirbúningi þessa samnings og var sú afstaða í samræmi við ákvörðun annarra aðildarríkja kjarnorkubandalagsins NATÓ, en sem kunnugt er áskilur NATÓ sér rétt til beitingu kjarnorkuvopna að fyrra bragði. Enn er þó færi á því fyrir Ísland að undirrita sáttmálann, undirgangast skuldbindingar hans og leggja sitt að mörkum til útrýmingar kjarnorkuvopna í heiminum.

Fyrir hönd málefnahóps um alþjóða- og mannréttindamál,
Auður Lilja Erlingsdóttir og Daníel E. Arnarsson

27. Ályktun um kjarnorkuvopn: Segjum nei við kjarnorkuvopnum!

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, harmar að Ísland hafi ekki verið á meðal þeirra 122 þjóða sem skrifuðu undir samkomulag Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Með því hafa íslensk stjórnvöld sýnt með skýrum hætti að þau hafa ekki lært af sögunni og styðja við notkun gereyðingarvopna sem gætu hrint af stað stríðsátökum af ófyrirséðri stærðargráðu. Ísland á að styðja bann við kjarnorkuvopnum og ganga úr NATO.

Framkvæmdastjórn UVG

28. Ályktun um uppgang fasisma og rasisma: Við viljum ekki afturhvarf til fortíðar

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, telur að grípa þurfi til róttækra aðgerða til þess að stöðva það afturhvarf sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum og víðar í heiminum, þar sem uppgangur fasisma og rasisma minnir einna helst á aðstæður eins og þær voru fyrir mörgum áratugum síðan. Atburðirnir í Charlottesville minnir á þær alvarlegu afleiðingar sem hatursorðræða gegn minnihlutahópum getur haft í för með sér. Evrópa og heimurinn allur þarf að sýna í verki að hatur fái ekki að líðast. Uppgangur þjóðernissinnaðra stjórnmálaflokka hér á landi sýnt að á Íslandi er ekki síst þörf fyrir að berjast gegn þjóðernishyggju, rasisma og hatursorðræðu.

Framkvæmdastjórn UVG

29. Ályktun um vopnavæðingu lögreglunnar

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Vinstrihreyfingin – grænt framboð varar eindregið við aukinni vopnavæðingu lögreglu og ítrekar að öll umræða um aukinn vopnaburð lögreglu verður að byggjast á staðreyndum og má ekki verða til þess að ala á ótta við tiltekna samfélagshópa.

Ísland á að heita herlaust og friðsamt land. Við þurfum að gæta vel að því að engar breytingar verði á þeirri stöðu. Við getum verið fyrirmynd annarra þjóða og eigum tala fyrir friðsamlegum lausnum og vera hvarvetna rödd friðar og vopnleysis. Þessum sjónarmiðum þarf að halda til haga þegar rætt er um vopnaburð íslensku lögreglunnar.

Vinstri græn hafa ítrekað bent á þann vanda sem lögreglan í landinu býr við. Áætlað er að um 200 almenna lögreglumenn vanti til að mönnun standi undir þeim þjónustu- og öryggiskröfum sem gerðar eru til lögreglunnar. Viðvarandi undirmönnun hefur líka leitt til óhóflegs álags á lögreglumenn í starfi. Mikilvægara er að fjölga lögreglumönnum en byssum og er það margfalt líklegra til að skila árangri og tryggja öryggi almennings um land allt.

Það er með öllu ólíðandi að ákvarðanir um meiriháttar stefnubreytingu í löggæslu – breytingu sem hefur víðtæk áhrif á íslenskt samfélag – séu teknar án nokkurrar opinberrar umræðu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð ítrekar að aukin vopnavæðing er ekki lausn á neinum vanda. Það á við jafnt hérlendis sem erlendis.

Fyrir hönd málefnahóps um alþjóða- og mannréttindamál,
Auður Lilja Erlingsdóttir og Daníel E. Arnarsson

30. Almenn ályktun um alþjóðamál

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Á liðnum árum hefur átakasvæðum í heiminum fjölgað og ofbeldi þar færst í vöxt. Undirliggjandi ástæður þessa eru margvíslegar, svo sem umhverfislegar vegna veðurfarsbreytinga en ekki síður eru þær afleiðing af misskiptingu auðsins þar sem ríkasta brotabrot mannkyns sankar til sín sífellt meiri auðæfum. Á sama tíma keppast vopnaframleiðsluríki við að dæla hergögnum til átakasvæða, án þess að skeyta um afleiðingar þess.

Staða heimsmála sýnir fram á fullkomið skipbrot íhlutunarstefnu NATO-ríkja. Þrátt fyrir áralangan, blóðugan og kostnaðarsaman hernað er ekkert lát á átökum í Afghanistan, Írak og Lýbíu. Í Jemen þar sem Sádi-Arabar stunda stríðsrekstur af fullum þunga með stuðningi forysturíkja NATO blasir við hörmuleg hungursneyð og enn er barist í Sýrlandi.

Átökin eru í dag komin á það stig að leiðtogi eins valdamesta ríki heims hótar öðrum ríkjum eldi og brennisteini og lítur á kjarnorkuvopn sem raunhæfan kost til að „leysa“ vandamál og draga úr átökum.

Staðan sem komin er upp varðandi kjarnorkuvopnaeign Norður-Kóreu og orðaskak stjórnvalda þar við nágranna sína og Bandaríkjastjórn, er lifandi sönnun þess að kjarnorkuvopnastefna risaveldanna er dæmd til að misheppnast. Með því að ausa fjármunum í þróun og uppbyggingu kjarnorkuvopnabúra sinna, gera risaveldin framleiðslu kjarnavopna sífellt ódýrari og auðveldari með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum að vopnin breiðast enn frekar út. Eina lausnin hlýtur að vera sú að ríki heims sameinist um bann það við kjarnorkuvopnum sem samþykkt hefur verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, en íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað styðja af þýlyndi við kjarnorkuvopnastefnu NATO.

Stríðsátök, sem oftar en ekki er stofnað til eða mögnuð upp af NATO-ríkjum, geta af sér neyð og eyðileggingu. Sömu ríki styðja við bakið á einræðisstjórnum sem brjóta á mannréttindum borgara sinna og NATO-ríki eru sömuleiðis í fararbroddi þeirra samfélaga sem viðhalda þeirri efnahagslegu misskiptingu sem veldur því að fjöldi fólks um heim allan sér ekki fram á að geta skapað sér sómasamlegt líf á heimaslóðum.

Allir framangreindir þættir ýta undir flutninga fólks, oft við hörmulegar og háskalegar aðstæður, í leit að friði, öryggi og betra lífi. Í stað þess að horfast í augu við þennan veruleika kjósa ýmsir á Vesturlöndum að skjóta sér undan ábyrgð, afmennska fólkið sem hér um ræðir og breyta þeim í vandamál – flóttamannavandann.

Ein birtingarmynd þessa skeytingarleysis er uppgangur þjóðernisöfgafólks, kynþáttahatara og nýnasista víða um lönd. Það eru samtök sem hafa það helst á stefnuskránni að ala á ótta við útlendinga, minnihlutahópa og ólíka menningarheima. Slík öfl hafa náð kjöri á þjóðþingum og einstaklingar sem styðja málstaðinn fremja hatursglæpi, jafnvel án fordæmingar ráðandi aðila. Hér á landi má sjá sömu orðræðu þó að reynt sé að fegra hana með umhyggju fyrir fátæku fólki og eldri borgurum, þ.e. ræða kostnaðinn við „flóttamannavandann“ í stað þess að ræða sjálfa uppsprettuna: misskiptingu auðsins.

Ísland ætti á alþjóðavettvangi að tala máli afvopnunar, mæla fyrir friðsamlegum lausnum og ýta undir umburðarlyndi í stað þjónkunar við hernaðarhyggju NATO. Í skýrslu um framtíð utanríkisþjónustunnar sem nýverið var kynnt kemur skilningsleysi íslenskra ráðamanna enn skýrar í ljós þar sem lausnin við sívaxandi misskiptingu, átökum og neyð virðist helst felast í að stofna á nýjan leik sérstaka varnarmálaskrifstofu og fella friðargæsluna undir hana.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð ítrekar stefnu sína í alþjóða- og friðarmálum og leggur áherslu á að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir að:

 • Ísland taki skilyrðislausa afstöðu gegn hernaði.
 • Ísland segi sig úr NATO.
 • Ísland beiti sér fyrir afvopnun á alþjóðavettvangi.
 • Ísland sé friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og banni umferð þeirra í íslenskri lögsögu.
 • Ísland undirriti sáttmálann um alþjóðlegt bann við kjarnorkuvopnum.
 • Ísland sendi ekki fulltrúa til að starfa á vegum hernaðarsamtaka erlendis.
 • Ísland taki á móti fleiri flóttamönnum.
 • Ísland beiti sér gegn múrum og girðingum milli þjóða og þjóðfélagshópa.

Fyrir hönd málefnahóps um alþjóða- og mannréttindamál,
Auður Lilja Erlingsdóttir og Daníel E. Arnarsson

31. Ályktun um norðurslóðir

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017 ítrekar afstöðu hreyfingarinnar þegar kemur að málefnum norðurslóða. Höfuðverkefni þeirra sem vinna að málefnum norðurslóða er að stemma stigu við loftlagsbreytingum af mannavöldum. Loftlagsbreytingar ógna ekki aðeins lífríki og lífsháttum á norðurslóðum heldur eru þær afdrifaríkasta áskorun mannkyns alls til framtíðar. Í þágu langtímahagsmuna komandi kynslóða gjalda Vinstri græn varhug við áformum um vinnslu gass og olíu á norðurslóðum. Jarðefnaeldsneyti er sá þáttur sem veldur mestu álagi á lofthjúp jarðar og því felst ákveðin þversögn í því að Ísland taki þátt í að auka á þann vanda á sama tíma og Ísland hefur lagt á það áherslu að skipa sér í fremstu röð þeirra ríkja sem vilja berjast gegn loftslagsvánni.

Vinstri græn leggja þunga áherslu á rétt frumbyggja til eigin lands og alhliða viðurkenningar á sjálfstæðum rétti þeirra til blómstrandi menningar á eigin forsendum, lífshátta og sjálfstjórnar. Rannsóknir hafa sýnt að verðmæti og fjármagn streymir iðulega frá jaðarsvæðum til borga og þéttbýlla svæða eða jafnvel suður á bóginn og út fyrir landsteinana. Það er úrslitaatriði fyrir samfélög norðursins til framtíðar að heimamenn fái sjálfir að njóta auðlinda norðursins með sjálfbærum hætti og að arður haldist heima fyrir á afskekktari slóðum til uppbyggingar innviða og tækifæra fyrir yngri kynslóðir.

Leggja þarf sérstaka rækt við samspil umhverfis og mannlífs á norðurslóðum og styrkja félagslegar rannsóknir og tengingar þeirra við stefnumótun. Á þeim sviðum á Ísland að sækjast eftir að vera leiðandi rödd innan Norðurskautsráðsins.

Fyrir hönd málefnahóps um alþjóða- og mannréttindamál,
Auður Lilja Erlingsdóttir og Daníel E. Arnarsson

32. Ályktun um alþjóðasamninga

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Síðastliðinn vetur var á Alþingi fullgiltur fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja. Samningurinn var fullgildur þrátt fyrir að fyrir lægi og bent væri á í þingsal að forseti Filippseyja, lögreglulið og sérsveitir á hans vegum hafi nýverið drepið tæplega 5000 manns án dóms og laga. Einnig hafa Sameinuðu þjóðirnar skorað á þarlend stjórnvöld að virða laga og réttarkerfið í landinu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð ítrekar andstöðu sína við að íslensk stjórnvöld geri fríverslunarsamninga við ríki sem ekki virða lágmarks mannréttindi. Ísland á að vera í fremstu röð á heimsvísu að að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir friðsamlegum lausnum, jöfnuði og félagslegu réttlæti.

Fyrir hönd málefnahóps um alþjóða- og mannréttindamál,
Auður Lilja Erlingsdóttir og Daníel E. Arnarsson

33. Ályktun um málefni hinsegin fólks

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017 lýsir yfir áhyggjum af því að Ísland hafi dregist verulega aftur úr þegar kemur að alþjóðlegum samanburði á stöðu hinsegin fólks í heiminum. Á regnbogakorti ILGA Europe uppfyllir Ísland nú innan við helming lagalegra skilyrða til að réttindi hinsegin fólks séu tryggð og hefur Ísland því dregist mikið aftur úr síðan 2014 og er nú töluvert á eftir þeim þjóðum sem við berum okkur gjarnan saman við.

Vinstri græn vilja tryggja atvinnuöryggi hinsegin fólks með lagasetningu þess efnis að ekki sé hægt að segja fólki upp á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar, líkt og staðan er í dag. Eins mótmæla Vinstri græn því að skurðaðgerðir séu framkvæmdar á intersex fólki, jafnvel frá bernsku, án nauðsynjar eða samþykkis þess. Einnig mótmæla Vinstri græn því að geðröskunargreiningu þurfi til þess eins að fólk fái að breyta kynskráningu sinni hjá hinu opinbera.

Vinstri græn vilja að intersex einstaklingar fái að ráða því sjálfir hvort þeir falli inn í þær fyrir fram ákveðnu kynjamyndir þegar þeir hafa aldur til og ekki eigi að raska kynvitund þeirra með óþarfa inngripum á kyneinkennum þeirra. Það er klárt mannréttindabrot að framkvæma aðgerðir á hvítvoðungum til þess eins að normgera kyneinkenni þeirra, svo þeir passi inn í ákveðinn kynjaramma án upplýsts samþykkis einstaklingsins.

Allir hafa rétt á að vera sú manneskja sem þeir eru óháð öllu öðru. Fólk á sjálft að fá að skilgreina sig út frá sinni kynvitund, kynhneigð, kyneinkennum og kyntjáningu, hvort sem það fari í aðgerð eða kynleiðréttingaferli, til að sækjast eftir kyneinkennum sem samrýmast betur þeirra kynvitund, eða ekki. Fólk á sjálft að fá að ákveða hvort það fari í kynleiðréttingaferli og á sömuleiðis sjálft að stjórna ferlinu.

Ekki skal gera kröfur um ákveðna kyntjáningu til þess að aðgerð sé leyfð, heldur á einstaklingurinn sjálfur að stýra ferðinni í góðu samráði við lækna. Horfið verði frá hinum úreltu viðhorfum að einstaklingar þurfi geðröskunargreiningu til þess að þeim sé hleypt inn í kynleiðréttingarferli, þar sem það er gróf tímaskekkja. Aldrei má hefta aðgengi einstaklings að heilbrigðisþjónustu og gildir nákvæmlega það sama þegar kemur að trans einstaklingum. Kynleiðréttingaferlið skal vera greitt af hinu opinbera.

Vinstri græn vilja að fólk ráði því sjálft hvernig nafn þess og kyn sé skráð í Þjóðskrá. Eins verði við fleiri valmöguleikum en aðeins hinum tveimur hefðbundnu kynjum, þar sem allt fólk fellur ekki í sama mótið. Ísland gæti í þessum efnum farið að fordæmi annarra þjóða með því að bjóða upp á X-skráningu í þjóðskrá, sem þýðir einfaldlega að hið opinbera skráir fólk hvorki sem karl né konu. Því gætu einstaklingar verið X-merktir í vegabréfi og á öðrum persónuskilríkjum sem krefjast kynskráningar.

Einnig þarf að tryggja hinsegin fólki vernd í stjórnarskrá með því að bæta við 65. grein, svo þar séu að auki tilgreind kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáning. Á sama veg ætti stjórnarskráin að viðurkenna fleiri kyn en aðeins þau sem kynjatvíhyggjan gerir ráð fyrir, þ.e. karl og konu.

Stefnt skal að því að leggja af kynjaskipt salerni í opinberum byggingum eða tryggja kynhlutlaus salerni þar sem það á við, enda er það mikilvægt fyrir fólk sem ekki fellur að hinum hefðbundna kynjaramma. Bann við blóðgjöfum karlmanna sem stunda mök með öðrum karlmönnum er einnig tímaskekkja sem þarf að afnema sem fyrst. Íslenska ríkið þarf að leggja áherslu á það að semja við ríki sem heimila ættleiðingar hinsegin fólks ásamt því að vera mun sterkara þrýstiafl á þjóðir sem banna ættleiðingar hinsegin fólks.

Einnig eru hinsegin hælisleitendur hópur sem þarf að hlúa sérstaklega að, þar sem um jaðarhóp innan jaðarhóps er að ræða. Þeim þarf að tryggja bestu mögulegu ráðgjöf og þjónustu sem hugsast getur, auk þess sem Útlendingastofnun þarf að taka sérstakt tillit til þess hóps. Eins er kominn tími til að íslenska ríkið styðji í ríkari mæli við hagsmunasamtök hinsegin fólks, sem fær aðeins brotabrot af því fé sem nágrannalönd okkar leggja til sambærilegra félaga. Þá hefur ríkið hingað til vanrækt að setja slík samtök á fjárlög.

Íslensk stjórnvöld hafa gjarnan barið sér á brjóst og fagnað góðum árangri um það leyti sem hátíðarhöld hinsegin fólks fara fram. Jákvæður málflutningur stjórnvalda dugar hins vegar óneitanlega skammt ef aðgerðir og lagabreytingar fylgja ekki fögrum orðum. Alþingi og íslenska ríkið þarf að gera meira þegar kemur að málefnum hinsegin fólks og þar eru Vinstri græn tilbúin til að taka stór skref.

Fyrir hönd málefnahóps um alþjóða- og mannréttindamál,
Auður Lilja Erlingsdóttir og Daníel E. Arnarsson

34. Ályktun um stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólk

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Staða umsækjanda um alþjóðlega vernd og flóttafólks Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017 vill stórbæta aðbúnað umsækjanda um alþjóðlega vernd og veita fleirum stöðu flóttafólks. Sem einni ríkustu þjóð í heimi ber okkur að taka betur á móti þeim sem hingað leita með ósk um alþjóðlega vernd og taka fleiri mál einstaklinga til efnislegar meðferðar, veita fleirum stöðu flóttfólks og senda færri úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Allir sem sækja um alþjóðlega vernd eiga að vera í þjónustu sveitarfélags sem rekur félagsþjónustu og skóla, en ríkisstofnun á borð við Útlendingastofnun á ekki að taka að sér slíka þjónustu eins og nú er. Þá er mikilvægt að tryggja að börn umsækjenda um alþjóðlega vernd búi við ásættanlegar aðstæður og fái fljótt inni í skóla, á meðan mál fjölskyldunnar bíður afgreiðslu. Mikilvægt er að standa með sómasamlegum hætti að móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn og tryggja að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem og aðrir mannréttindasáttmálar, séu uppfylltir í öllum tilfellum. Þeir sem fá stöðu flóttamanns þurfa að fá öruggt húsnæði meðan þeir eru að koma undir sig fótunum. Varðandi það flóttafólk sem er boðið hingað af yfirvöldum skiptir máli að nota ekki móttöku flóttafólks sem tekjuöflun fyrir sveitarfélög heldur finna þeim búsetu í sveitarfélögum sem hafa innviði, þekkingu og reynslu til að veita þá fjölbreyttu og flóknu þjónustu sem flóttamenn þurfa til að byrja með. Efla þarf íslenskukennslu og veita fólki tækifæri til að fara í skóla sem hentar þeirra menntunarstigi. Þeir sem koma hingað sem umsækjendur um alþjóðlega vernd og fá stöðu flóttafólks þurfa að fá sömu móttökur, þjónustu og tækifæri og það flóttafólk sem er boðið hingað. Móttökurnar og stuðningurinn sem fólk fær til að byrja með ræður úrslitum um það hvort því tekst að koma undir sig fótunum og halda heilsu til lengri tíma. Alþjóða- og mannréttindahópur Vinstri grænna

Fyrir hönd málefnahóps um alþjóða- og mannréttindamál,
Auður Lilja Erlingsdóttir og Daníel E. Arnarsson

35. Ályktun um samhengi umhverfismála, frjálsra viðskipta, byggðamála og matvælaframleiðslu

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 6.-8. október 2017 ályktar:

Horfa verður í samhengi á umhverfismál, frjáls viðskipti, byggðamál og matvælaframleiðslu.

 1. Vöruflutningar um langa leið valda gífurlegri mengun og enn meiri ef um er að ræða flutninga kæli- eða frystivöru. Það er því nokkuð ljóst að fyrr eða síðar verða gerðir alþjóðlegir samningar af umhverfisástæðum um takmarkanir á vöruflutninga á einhvern hátt. Þótt ekki væri af öðrum ástæðum en því er mikilvægt að stefna að því að framleiðsla fari fram sem næst neytandanum, ekki síst margvísleg matvælaframleiðsla.
 2. Af þessum ástæðum eru Íslendingar í raun heppnir að búa við þær hömlur sem ríkja á innflutningi ýmissa landbúnaðarvara. Þótt ekki væri af öðrum ástæðum er mikilvægt að halda í þessar hömlur þótt þær valdi hugsanlega í mörgum tilvikum hærra matvælaverði þegar til skamms tíma er litið. Allar líkur eru á að slíkur kostnaður muni skila sér til baka til komandi kynslóða, jafnvel þegar til þeirrar sem nú er að vaxa úr grasi.
 3. Þótt sýna megi fram á að yfirtaka fjölþjóðlegra stórfyrirtækja á matvælaframleiðslu, ekki síst í landbúnaði, og alþjóðleg viðskipti þeirra með matvæli hafi í mörgum tilvikum lækkað matarverð hefur það um leið valdið gífurlegum umhverfisspjöllum og röskun á byggð og samfélagi og hrakið fjölda fólks úr sveitum og sjávarbyggðum á öskuhauga stórborganna. Þessara geigvænlegu áhrifa gætir ef til vill mest í viðkvæmari og fátækari samfélögum utan hinna grónu og þróuðu auðvaldsríkja en láta þau þó engan veginn ósnortin.
 4. Þessi staða kallar á það sem kalla má grenndarvæðingu eða „lókalíseringu“ í stað hnattvæðingar eða „glóbalíseringar“. Grenndarstefna byggist á því að framleiðslan fari eftir því sem unnt er fram sem næst neytandanum, án þess þó að loka á umheiminn, og að hver minnsta eining samfélagsins hafi sem mest um sín mál að segja og allar ákvarðanir, hvort sem þær eiga við nánasta umhverfi eða heiminn allan, séu teknar á sem allra lýðræðislegan hátt en ekki af stjórnendum stórfyrirtækja á skrifstofum víðsfjarri. Grenndarstefnan verður að vera sveigjanleg þannig að hún taki tillit til hagsmuna allra samfélaga, hvort sem um er að ræða frumstæð og einangruð samfélög eða háþróuð samfélög mitt í hringiðu heimsins. Grenndarvæðingin byggist ekki á einangrunarstefnu eða þjóðernisstefnu heldur lýðræðishyggju og samstöðu alþýðu allra landa í stað þeirrar gróðahyggju og eftir atvikum samstöðu eða togstreitu auðvalds allra landa sem hnattvæðingin byggist á.
 5. Stefna Vinstri grænna í umhverfismálum og varðandi byggðamál og viðskipti og framleiðslu matvæla og annarra vara byggist hvorki á íhaldssemi né róttækni heldur raunsærri sýn á umhverfismál og hagsmuni alþýðunnar heima fyrir sem á heimsvísu, í samtíð sem í framtíð. Sérhver kynslóð ber ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum.

Einar Ólafsson

Greinargerð

Þessi tillaga er sett fram fyrst og fremst til umræðu. Flutningsmaður telur mikilvægt að það samhengi sem þarna er rætt sé á einhvern hátt sett fram í stefnu flokksins en er viðbúinn því að fundurinn telji hana þurfa frekari umræðu. Þannig hefur t.d. hugtakið „grenndarvæðing/grenndarstefna“ (lokalisering/localization) ekki verið tekið til skipulegrar umræðu í flokknum. Til nánari upplýsinga fylgir með grein um hugtakið sem lengi var aðgengileg á netinu en er það því miður ekki lengur.

Grenndarstefna

eftir Einar Ólafsson

Hið nokkuð svo óljósa fyrirbæri hnattvæðing hefur verið gagnrýnt mjög og jafnvel vakið upp miklar mótmælaaðgerðir víða um heim og alþjóðlega andófshreyfingu á undanförnum áratug. Hverju eru menn að mótmæla? Hvað er svona neikvætt við hnattvæðinguna?

Andstæðingar hnattvæðingar þrengja hugtakið gjarnan með því að tala um kapítalíska hnattvæðingu eða hnattvæðingu á forsendum nýfrjálshyggjunnar eða stórfyrirtækjanna (corporate globalization). Ýmsar viðskiptahömlur hafa verið afnumdar, einkum gegnum samningaferli á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, þannig að stórfyrirtæki fá frjálsari hendur til að stunda viðskipti hvarvetna og flytja fjármagn og starfsemi hvert á land sem þeim hentar best. Efnahagskerfi heimsins er miðað við hagsmuni stórfyrirtækjanna og hámarksgróði þeirra verður markmiðið. Þetta veldur oft því að staðbundin framleiðsla, bæði í landbúnaði og iðnaði, verður undir, afkoma einstakra byggðarlaga verður háð ákvörðunum sem jafnvel eru teknar á skrifstofum stórfyrirtækja hinum megin á hnettinum, framleiðsla, neysla og ýmsir menningarþættir verða einsleitari. Þess vegna hafa t.d. smábændur og frumbyggjar í þróunarlöndunum verið áberandi í andófshreyfingunni ásamt menntamönnum í þróuðu löndunum auk ýmissa annarra hópa.

Þessi hreyfing er ekki bara á móti. Æ meiri umræður hafa orðið á undanförnum árum um hvaða valkosti við eigum við kapítalíska hnattvæðingu og nýfrjálshyggju. Meðal annars hefur verið rætt um svokallaða lókalíseringu (localization). Mér er ekki alveg ljóst hvaða íslenskt orð hentar best fyrir þetta, kannski „grenndarvæðing“ eða „grenndarstefna“. Í örstuttu máli má segja að inntak þessarar stefnu sé að hvert byggðarlag eða hver minnsta eining samfélagsins hafi sem mest um sín mál að segja. Það fer svo eftir atvikum hversu víðtækar þessar einingar eru, þær geta verið einstaklingurinn, fjölskyldan, hverfi, sveitarfélag, mismunandi stór byggðarlög, héruð, einstök ríki, ríkjahópur eða heimssvæði. Hugsun í þessa átt er víða að finna, svo sem í því sem kallast nálægðarregla og felst í að sérhver ákvörðun skuli tekin eins nærri þeim sem málið varðar og unnt er. En grenndarstefnan er bæði víðtækari og róttækari, einkum vegna þess að hún nær líka til framleiðslunnar. Þannig yrði leitast við að varan yrði framleidd sem næst neytandanum – eða neytt sem næst framleiðandanum. Hver samfélagseining leitist þannig við að vera sem mest sjálfri sér næg og framleiði fyrir sig það sem hægt er og hagkvæmt. Og þegar við segjum hagkvæmt, þá skoðum við það í víðu samhengi þar sem bæði umhverfisleg og samfélagsleg sjónarmið eru tekin inn í dæmið. Við getum kannski fengið ódýrara lambakjöt frá Nýja Sjálandi ef við skoðum dæmið þröngt. Útkoman breytist hins vegar ef við tökum inn í dæmið umhverfislegan kostnað, svo sem vegna þeirrar mengunar sem flutningur yfir hálfan hnöttinn kostar, eða samfélagslegan kostnað vegna þeirra starfa sem tapast hér í landbúnaði og matvælaiðnaði, sem og vegna og byggðaröskunar og annarra samfélagslegra áhrifa.

Grenndarstefnan tengist líka hugmyndum um fæðuöryggi (food security eða food sovereignty) þar sem mikið er lagt upp úr að lönd eða landshlutar séu sem mest sjálfbjarga varðandi grundvallarfæðuöflun. Sú stefna beinist m.a. gegn viðleitni yfirþjóðlegra landbúnaðarfyrirtækja til að sölsa undir sig stór landsvæði í þróunarlöndunum, oft með geigvænlegum afleiðingum fyrir smábændur.

Grenndarvæðingin mundi krefjast allt annarskonar viðskiptareglna og samninga en Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) stendur fyrir og reyndar hefur verið stungið upp á að sú stofnun víki fyrir Alþjóðlegu grenndarvæðingarstofnuninni (World Localization Organization – WLO) og GATT-samningurinn (Almennt samkomulag um um tolla og viðskipti) víki fyrir GAST-samningi sem stendur fyrir Almennt samkomulag um sjálfbær viðskipti (General Agreement on Sustainable Trade).

Með grenndarvæðingu er ekki átt við að hvert samfélag eigi að einangra sig. Þvert á móti leggja talsmenn hennar áherslu á að tengja hana alþjóðahyggju. Heimsviðskipti halda áfram, en þau mundu minnka talsvert þar sem fyrst og fremst yrðu fluttar inn vörur sem ekki er hægt eða hagkvæmt að framleiða heima fyrir. Hins vegar er lögð mikil áhersla á að menn skiptist á upplýsingum og kunnáttu og vinni þannig saman að aukinni hagsæld. Svona hagkerfi mundi að sjálfsögðu ekki byggjast á samkeppni nema þá að takmörkuðu leyti og því mundi einstaklingum eða fyrirtækjum ekki vera það sama hagsmunamál og nú að halda upplýsingum og kunnáttu fyrir sig.

Ekki eru allir, sem andæft hafa hnattvæðingunni, jafn hrifnir af þessum hugmyndum. Þannig hefur t.d. breski blaðamaðurinn George Monbiot gagnrýnt þær bæði í bók sinni The Age of Consent og blaðagreinum (t.d. „I Was Wrong About Trade“, Guardian 24.6.03, sjá www.monbiot.com), en hann óttast að slíkar takmarkanir á heimsviðskiptum gætu dregið úr velmegun og framförum og þær mundu festa hin vanþróaðri lönd í áframhaldandi vanþróun.

Sjá nánar:

Colin Hines, Localization. A Global Manifesto, Earthscan 2000.

Colin Hines, „Understanding and Explaining Localization“, www.sovereignty.org.uk/features/footnmouth/local11.html.

www.peoplesfoodsovereignty.org

www.foodfirst.org

www.foodsecurity.org

Janúar 2007

36. Ályktun um heilbrigðismál

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur áherslu á að heilbrigðiskerfið verði félagslega rekið sem bæði tryggir best aðgengi almennings að öflugri heilbrigðisþjónustu og er hagkvæmasta leiðin til að reka góða heilbrigðisþjónustu. Þetta er í takt við vilja yfirgnæfandi meirihluta landsmanna sem vill samkvæmt skoðanakönnunum að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera og hafnar þar með auknum einkarekstri sem hefur hins vegar verið áhugamál núverandi ríkisstjórnar. Þörf er á skýrri framtíðarsýn fyrir hið opinbera heilbrigðiskerfi í stað tilrauna til að útvista verkefnum sem einkaaðilar hafa síðan að féþúfu.

Þá leggur fundurinn til að stefnt skuli að því að heilsugæslan verði færð frá ríki til sveitarfélaga að undangengnu vönduðu kostnaðarmati og langtímafjárskuldbindingu ríkisins með tilliti til nýs heildræns lýðheilsuhlutverks heilsugæslunnar. Forvarnar- og geðheilbrigðishlutverk heilsugæslunnar um allt land verði vel skilgreint. Í þessu sambandi verði hugað að stjórnsýslulegri stöðu sveitarfélaga og samlags sveitarfélaga þannig að þau verði í stakk búin að taka við heilsugæslunni. Mikilvægt er að þessi breyting sé liður í því að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað heilbrigðiskerfisins en þverpólitísk sátt skapaðist um að taka upp tilvísanakerfi samhliða þaki á greiðsluþátttöku sjúklinga.

Heilbrigðiskerfið á að þjóna öllum óháð efnahag, aðstæðum og búsetu. Landsfundurinn fagnar því að náðst hafi samstaða á Alþingi árið 2016 um að setja þak á greiðsluþátttöku sjúklinga en telur að lækka þurfi það þak og samræma reglur um læknis- og lyfjakostnað. Stefnt skal að því að þjónusta á heilsugæslunni og göngudeildum verði gjaldfrjáls.

Kanna skal möguleika á því að koma á fót embætti Umboðsmanns sjúklinga til leiðbeiningar, stuðnings og hagsmunagæslu fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Fyrir hönd málefnahóps um velferðar-, mennta- og heilbrigðismál
Brynhildur Björnsdóttir, Sigursteinn Másson og Sigríður Gísladóttir

37. Ályktun um notendastýrða persónulega aðstoð

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs áréttar að notendastýrð persónuleg aðstoð þurfi að verða raunverulegt val fyrir þá sem þurfa hana til að lifa sjálfstæðu lífi og tími til kominn að festa það verkefni í sessi með lögum. Sveitarfélög eiga að bjóða upp á þjónustuna alls staðar á landinu og ætti hún að vera kostuð af ríkinu og stjórnað af notendunum sjálfum. Mikilvægt er að reglur og aðgengi að notendastýrðri persónulegri aðstoða séu samræmd milli ólíkra sveitarfélaga.

Fyrir hönd málefnahóps um velferðar-, mennta- og heilbrigðismál
Brynhildur Björnsdóttir, Sigursteinn Másson og Sigríður Gísladóttir

38. Ályktun um upprætingu fátæktar á Íslandi

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 6.-8. október 2017 felur þingmönnum VG að leggja fram á yfirstandandi þingi þingsályktunartillögu um að velferðarráðuneytinu verði falið að gera greiningu á umfangi, eðli og orsökum fátæktar á Íslandi með það að markmiði að gerð verði hið fyrsta í samvinnu ríkis og sveitarfélaga áætlun um að bregðast við þessum orsökum og fátækt verði upprætt á Íslandi innan fárra ára.

Á Íslandi búa tiltölulega fáir við fátækt um leið og Ísland er tiltölulega vel stætt samfélag og aðstæður þannig að þetta ætti að vera raunhæft markmið.

Nú þegar liggja fyrir miklar upplýsingar um fátækt á Íslandi og orsakir hennar og meðal annars hafa legið fyrir í tæp þrjú ár tillögur Velferðarvaktarinnar um aðgerðir til að uppræta fátækt. Því ætti að vera auðvelt að taka saman til bráðabirgða nægilegar upplýsingar til að hefjast handa um afmarkaðar aðgerðir sem fyrst bæði á vettvangi Alþingis og sveitarstjórna. Eitt af meginstefnumálum VG í næstu sveitarstjórnarkosningum verði að vinna markvisst að þessu markmiði á næsta kjörtímabili að því leyti sem það er á verksviði sveitarstjórna.

Einar Ólafsson

Greinargerð

(Flutningsmaður tók saman nokkrar upplýsingar um fátækt á Íslandi í apríl 2017 og má finna þær á vefslóðinni http://ogmundur.is/frjalsir-pennar/nr/8124/)

39. Ályktun um einkavæðinguna sem óvart varð og baráttuna gegn Landspítala

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, telur stefnu núverandi ríkisstjórnar ógn við heilbrigðisþjónustu fyrir almenning í landinu. Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur þróast yfir á annað stig en áður hefur þekkst með tilkomu einkarekinna sjúkrahúsrýma. Algert stefnu- og aðgerðarleysi heilbrigðisráðherra í þessum efnum er ólíðandi, þar sem hann hundsaði m.a. tilmæli landlæknis um að skoða þyrfti lagasetningu í þessum efnum. Vinstrihreyfingin grænt framboð vill draga stórkostlega úr einkarekstri í heilbrigðiskerfinu, og afnema hann að lokum. Fjármagn fylgi frá ríkinu til að fjármagna þessa aðgerð.

Á meðan einkavæðing í heilbrigðiskerfinu nær að ganga lengra en nokkurn tíma fyrr er Landspítalinn enn sveltur. Þeir flokkar í ríkisstjórn sem lofuðu auknum fjármunum í heilbrigðiskerfið fella fjárveitingu sína til viðhalds og húsbygginga undir aukið fjármagn og reyna þannig að réttlæta það að nánast engu auka fjármagni sé veitt í rekstur Landspítalans. Á meðan er ástandið á Landspítalanum óviðunandi, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Ákalli Landspítalans um aukið fjármagn er svo svarað með hótunum um að pólitískt kjörin stjórn muni taki við á Landspítalanum – að því er virðist til þess að þagga niður í ákalli um að ófremdarástandið verði bætt.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð krefst þess að stjórnvöld standi við kosningaloforð sín og svari kröfu þjóðarinnar um að nauðsynlegt fjármagn verði lagt í hina opinberu heilbrigðisþjónustu til þess að byggja upp sterkt heilbrigðiskerfi þar sem engum er mismunað eftir fjárhag.

Framkvæmdastjórn UVG

40. Ályktun um geðheilbrigðisþjónustu

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

 

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 6.-8. október 2017 skorar á ríkisstjórnina að bæta og auka geðheilbrigðisþjónustu við landsmenn, bæði úti í samfélaginu og á sjúkrahúsum, með vísun í ítarlega ályktun alþingis 2016 um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Stofna ber á öllum sjö heilbrigðisstofnunum landsins sérstök geðheilbrigðisteymi, sem skipuleggi geðheilbrigðisþjónustu og veiti ráðgjöf og fræðslu fagfólki sérhverrar heilsugæslustöðvar í viðkomandi heilbrigðisumdæmi. Fundurinn telur að ekki þoli neina bið að byggja nýjan og betri húsakost fyrir bæði Geðsvið Landspítalans og Geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri, í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru til nýrra geðdeilda sjúkrahúsa á öðrum Norðurlöndum. Enn fremur er því beint til stjórnar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að heilbrigðismál og sérstaklega geðheilbrigðisþjónusta verði á dagskrá næsta flokksráðsfundar til ýtarlegrar fræðslu og kynningar.

VG Akureyri

41. Ályktun um heilsugæslur á landsbyggðinni

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Grand Hótel 6. – 8. október 2017 harmar þá þróun sem hefur verið á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni. Æ meiri áhersla hefur verið lögð á sjúkraflutninga, á láði sem og í lofti, á kostnað uppbyggingar í héraði. Þessi flutningur er miklu dýrari og hefur auk þess mjög óæskileg umhverfisáhrif. Með því að veita auknu fjármagni í uppbyggingu á landsbyggðinni getur Ísland stigið stórt skref til þess að uppfylla skilyrði Parísarsáttmálans.

Stjórn Svæðisfélags VG á Hornafirði

42. Ályktun um misskiptingu: Auðstéttin í fyrsta sæti - almenningur í öðru

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, harmar ójafnaðarstefnu núverandi ríkisstjórnar. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eru boðaðar enn frekari skattalækkanir á næstu árum, á sama tíma og enn er skorið niður á flestum sviðum.

Aðhaldið og niðurskurðurinn er án sýnilegs markmiðs annars en að uppfylla markmið nýfrjálshyggjunnar um að færa fjármagn hinna efnameiri frá þeim sem minna hafa. Vinstrihreyfingin – grænt framboð kallar eftir framsækinni skattastefnu sem grundvallast á hugmyndinni um að hver gefi eftir getu og hver fái eftir þörfum. Fyrir land eins og Ísland, þar sem ríkustu 10% landsmanna eiga um 75% alls auðs, er mikilvægt að skattleggja fjármagnsflutninga, fjármagnstekjur, ofurlaun og miklar eignir. Ráðast þarf að rótum skattsvika, en það að fela fjármagn í skattaskjólum er þjófnaður frá þjóðfélaginu öllu.

Að sama skapi þarf þjóðin að fá í auknu mæli arðinn af auðlindum landsins, hvort sem um er að ræða fiskveiðiauðlindina eða rafmagnið sem framleitt er með vatnsfallsvirkjunum. Þær aðgerðir myndu gera þjóðinni kleift að byggja upp innviði sem þjónusta alla, óháð efnahag. Efnahagslegur stöðugleiki þýðir ekki að allir búi við góð kjör. Stefna ríkisstjórnar í þágu þeirra ríku hefur fengið að viðgangast of lengi

Framkvæmdastjórn UVG

43. Ályktun um öfluga grunn- og leikskóla

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir áhyggjum af fyrirsjáanlegum kennaraskorti í grunn- og leikskólum landsins. Nú er þörf á samhentu átaki mennta- og menningarmálaráðuneytis, sveitarfélaga, háskólasamfélagsins og samtaka kennara til að fjölga kennaranemum og búa betur að kennurum í starfi þannig að færri hverfi frá kennslustörfum.

Endurskoða þarf framlög sveitarfélaga á hvern nemanda og tryggja þannig viðunandi stuðning í bekkjum og viðunandi hámarksfjölda í hópum. Tryggja þarf aukinn stuðning innan skóla til að framfylgja skóla án aðgreiningar og bæta félagslega þjónustu og heilsugæslu í nærumhverfi hvers skóla.

Fyrir hönd málefnahóps um velferðar-, mennta- og heilbrigðismál
Brynhildur Björnsdóttir, Sigursteinn Másson og Sigríður Gísladóttir

44. Ályktun um raunverulegt gjaldfrelsi í grunnskólum

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, fagnar því að sveitarfélög séu í auknum mæli farin að bjóða börnum í grunnskóla upp á frí námsgögn. Þetta er mikilvægt skref í því að vinna að því að skólar séu raunverulega gjaldfrjálsir, en á meðan foreldrar þurfa enn að kaupa námsgögn er það ekki raunverulega svo og skólakerfið gerir upp á milli barna efnameiri og efnaminni foreldra. Menntun á að vera gjaldfrjáls að öllu leyti og ekki gera upp á milli barna eftir efnahag. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill setja menntamál í forgang í sveitastjórnarkosningum í vor, þ.á.m. að námsgögn verði frí fyrir börn um land allt sem og skólamáltíðir.

Framkvæmdastjórn UVG

45. Ályktun um öfluga háskóla

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs gagnrýnir harðlega framgöngu stjórnvalda í málefnum háskólastigsins og hvetur til sóknar í málefnum háskólanna þannig að fjármögnun íslenskra háskóla verði sambærileg við fjármögnun háskóla á Norðurlöndunum árið 2020.

Greinargerð

Því miður hefur batnandi efnahagsástand undanfarin ár ekki verið nýtt til uppbyggingar í háskólum landsins. Háskólarnir eru undirstaða þekkingarsköpunar og þekkingarmiðlunar í samfélaginu. Aðgengi að háskólamenntun dregur úr misskiptingu og fjölbreytt atvinnulíf byggist á góðri menntun, nýsköpun og rannsóknum. Þannig eru háskólarnir undirstöðustofnanir í að styrkja innviði íslensks samfélags.

Stjórnvöld eru því miður að gera háskólunum erfitt að sinna þessu mikilvæga hlutverki. Meðaltalsframlög á hvern nemanda eru þriðjungi hærri í OECD-ríkjunum og tvöfalda þyrfti þessi framlög til að ná meðaltali Norðurlandanna.

Rektor Háskóla Íslands hefur dregið saman stöðuna þar þannig að þriðjungur deilda skólans sé í verulegum rekstrarvandræðum, annar þriðjungur sé í verulegum vandræðum og þriðjungur haldi sjó. Til að vel ætti að vera þyrfti skólinn að fá einn og hálfan milljarð til viðbótar. Afleiðingarnar af sveltistefnunni eru meðal annars mikið álag á starfsmenn skólans og hátt hlutfall stundakennara. Sambærileg staða er víða uppi annars staðar í háskólakerfinu. Það er brýnt að þessi staða verði leiðrétt sem fyrst eins og stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs gerir ráð fyrir en þar hefur ítrekað verið samþykkt að stefnt skuli að því að ná meðaltali Norðurlandanna í fjármögnun háskólastigsins.

Fyrir hönd málefnahóps um velferðar-, mennta- og heilbrigðismál
Brynhildur Björnsdóttir, Sigursteinn Másson og Sigríður Gísladóttir

46. Ályktun um undirfjármögnun og niðurskurð í háskólakerfinu

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, harmar þá stöðu sem blasir við íslenskum háskólum. Talsvert vantar upp á að Ísland nái meðaltali OECD fyrir framlög til háskólakerfisins eða 8 milljarða, þá vantar 16 milljarða til þess að ná meðaltali Norðurlandanna. Háskóli Íslands hefur þurft að fella niður 50 námskeið aðeins á þessu ári og þá er skólinn rekinn með talsverðum halla, aðrir háskólar á Íslandi búa við svipaðan vanda. Á undanförnum misserum hefur ítrekað komið fram að íslenskir háskólar standast ekki alþjóðlegan samanburð þegar kemur að fjármögnun þeirra. Íslenskir háskólar fá um helmingi lægri framlög á hvern háskólanema en háskólar á Norðurlöndunum og enn eru framlög á hvern nemanda í íslensku háskólakerfi lægri en þau voru fyrir áratug. Menntakerfi er ein af grunnstoðum velferðarríkis og ástandið eins og það er núna er óásættanlegt. Öflugt háskólakerfi, vísindi og rannsóknir eru nauðsynleg fyrir framþróun og framleiðni í samfélaginu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð krefst þess að stjórnvöld hysji upp um sig buxurnar í þessum málum, efni þau loforð sem háskólunum voru gefin fyrir kosningar áður en það verður um seinan!

Framkvæmdastjórn UVG

47. Ályktun um LÍN: All We Need Is Somebody to LÍN On

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, lýsir áhyggjum sínum á þeirri stofnun sem Lánasjóður íslenskra námsmanna er í dag. Lánasjóðkerfi námsmanna er löngu orðið úrelt og úr sér gengið. Ísland er eina landið meðal Norðurlandanna sem hefur ekki innbyggt styrktarkerfi í lánasjóðskerfinu sínu fyrir námsmenn (þó svo að LÍN vilji meina að vegna hagstæðra vaxtakjara og niðurfellingu námslána við andlát séu óbeinir styrkir í núverandi kerfi). Taka þarf rækilega til bæði í lögum um sjóðinn sem og úthlutunarreglum hans. Grunnframfærsla námsmanna hjá LÍN er skammarlega lág sem og frítekjumarkið. Þá greiðir LÍN út einungis eftir hverja önn sem gerir það að verkum að margir námsmenn þurfa að taka yfirdrátt hjá bönkunum sem getur reynst ansi þungur baggi fyrir námsmenn. Stjórnvöld verða að fara að átta sig á að námsmenn eru framtíðin og að fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni.

Á síðasta ári lagði Illugi Gunnarsson þáverandi menntamálaráðherra fram frumvarp sem fól í sér breytingar á núverandi kerfi. Þær breytingar voru þó frekar í þágu þeirra ríku heldur en þeirra sem nauðsynlega þurfa á sjóðnum að halda. Núverandi menntamálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, hefur sagt að hann vilji ráðast í breytingar á lögum sjóðsins sem fyrst. LÍN er jöfnunarsjóður sem á að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag, það er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld gleymi því ekki þegar heildarendurskoðun á lögum sjóðsins fer fram. Vinstrihreyfingin grænt framboð hvetur því til þess að innleitt verði styrkjakerfi af norrænni fyrirmynd í lánasjóðskerfið en þó með það í huga að kerfið verði bót fyrir alla námsmenn og þá sérstaklega þá sem standa hvað verst.

Framkvæmdastjórn UVG

48. Ályktun um framhaldsskóla til framtíðar

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs furðar sig á stefnubreytingu nýrrar ríkisstjórnar í málefnum framhaldsskólanna sem birtist í fjármálaáætlun núverandi stjórnvalda en þar eru skorin niður framlög til framhaldsskólastigsins sem nemur einum og hálfum milljarði. Fundurinn leggur til að frekar verði ráðist í stórsókn í framhaldsskólum landsins til að tryggja fjölbreytta og góða menntun fyrir alla sem þangað sækja og öllum verði tryggð framhaldsskólamenntun sem þess óska. Þar eiga utanaðkomandi þættir, eins og fötlun eða aldur, ekki að ráða um.  Þá leggur fundurinn áherslu á að einhliða ákvörðun um styttingu framhaldsskólanáms verði snúið við og skólum verði tryggt frelsi og sjálfstæði til að skipuleggja sitt nám eins og þeir telja best innan ramma laga og námskrár. Fundurinn ítrekar áherslur Vinstri grænna á að efla þurfi iðn- og verknám og tryggja stöðu þess í skólakerfinu. Að lokum hafnar fundurinn öllum tilraunum stjórnvalda til að aukinnar einkavæðingar í framhaldsskólakerfinu, hvort sem er á sviði iðnnáms og bóklegs náms.

Greinargerð

Stefna núverandi ríkisstjórnar í menntamálum hefur fyrst og fremst birst í fjármálaáætlun þeirri sem samþykkt var á síðasta vorþingi. Þar var verulegur niðurskurður á fjármunum til framhaldsskólanna frá síðustu samþykktu áætlun. Þar var til dæmis gert ráð fyrir 31.288 milljörðum til framhaldsskóla árið 2021 en í nýrri áætlun er sú fjárhæð 1,447 milljörðum kr. lægri, eða 29,841 milljarðar kr. Rétt er að nefna að einhliða ákvörðun ráðherra Sjálfstæðisflokksins um að allt framhaldsskólanám skyldi taka þrjú ár var meðal annars rökstudd með því að þeir fjármunir sem myndu sparast með þeirri tilhögun skyldu áfram nýtast skólunum til að bæta skólastarfið. Það loforð hefur nú verið svikið.

Þrátt fyrir batnandi efnahagsástand hefur sveltistefna stjórnvalda gagnvart framhaldsskólunum skilað sér í því að aðgengi fólks að framhaldsskólanámi hefur verið þrengt. Hætt var að greiða fyrir nemendur eldri en 25 ára þó að núverandi ráðherra fari undan í flæmingi þegar hann hefur verið spurður um þá ákvörðun. Þá vekur furðu að ekki virðist hafa tekist að veita öllum fötluðum nemendum skólavist við hæfi þó að þeir ættu að vera í fyrsta forgangi þeirra sem sækja um framhaldsskólavist.

Sérstök ástæða er til að hafa áhyggjur af iðn- og verknámi í ljósi fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Það nám er dýrara en hefðbundið bóknám og þarf aukinheldur sérstaka innspýtingu til að fjölga þeim sem stunda slíkt nám.

Sú ákvörðun að stytta framhaldsskólanám í þrjú ár í stað þess að viðhalda þeim sveigjanleika sem kveðið er á um í lögum um framhaldsskóla þar sem ekki er getið um tiltekin tímamörk eða einingahámark var misráðin. Mun eðlilegra er að fagfólk innan skólanna skipuleggi námið innan ramma laganna og nemendur hafi þannig fjölbreytta valkosti innan framhaldsskólakerfisins.

Athygli vakti þegar fréttist af áformum mennta- og menningarmálaráðherra um sameiningar framhaldsskóla sem virðast vera afleiðing ákvörðunar ráðherrans og ríkisstjórnar hans um að skerða framlög skólanna jafn mikið og sést í áðurnefndri fjármálaáætlun og ber að gjalda varhug við því að ráðast í slíkar sameiningar án fullnægjandi raka. Ennfremur er full ástæða til að hafa áhyggjur af því ef nýta á sveltistefnu stjórnvalda sem skjól fyrir enn frekari einkavæðingu í framhaldsskólakerfinu.

Fyrir hönd málefnahóps um velferðar-, mennta- og heilbrigðismál
Brynhildur Björnsdóttir, Sigursteinn Másson og Sigríður Gísladóttir

49. Ályktun um námsefni í framhaldsskólum

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur mikilvægt að gerð verði gangskör að endurnýjun námsefnis í framhaldsskólum. Ljóst er að markaðslausnir duga ekki til til að tryggja nýlegt námsefni í ólíkum námsgreinum á framhaldsskólastigi og því er mikilvægt að opinber stuðningur við námsefnisútgáfu fyrir framhaldsskóla verði aukinn.

Fyrir hönd málefnahóps um velferðar-, mennta- og heilbrigðismál
Brynhildur Björnsdóttir, Sigursteinn Másson og Sigríður Gísladóttir

50. Ályktun um listir, menningi og skapandi greinar

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur að bæta þurfi stöðu lista, menningar og skapandi greina innan stjórnsýslunnar og tryggja að hægt sé að byggja upp atvinnustarfsemi á sviði skapandi greina. Búa þarf mun betur að höfuðsöfnum þjóðarinnar og löngu er tímabært að reisa nýtt Náttúruminjasafn. Efla þarf stuðning við listamenn í gegnum faglega launasjóði og verkefnasjóði og tryggja að listamenn fái greitt fyrir sína vinnu. Styðja þarf betur og markvissar við opinberar menningarstofnanir og tryggja að allir landsmenn fái notið starfs þeirra. Sérlega mikilvægt er að Íslendingar af erlendum uppruna eigi greitt aðgengi að listum og menningu. Fundurinn fagnar því að loksins eigi að ráðast í aðgerðir á sviði máltækni en ítrekar að mikilvægt er að auka nú þegar við menntun á þessu sviði. Styðja þarf betur við bókaútgáfu, bæði með afnámi virðisaukaskatts á bækur og með öflugri stuðningi í gegnum sjóðakerfið. Þörf er á því að efla listmenntun á öllum skólastigum og tryggja aðgengi barna að listum, menningu og skapandi starfi. Þá er mikilvægt að efla rannsóknir á sviði lista og menningar.

Fyrir hönd málefnahóps um velferðar-, mennta- og heilbrigðismál
Brynhildur Björnsdóttir, Sigursteinn Másson og Sigríður Gísladóttir

51. Ályktun um framkvæmdir í samgöngumálum

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Grand Hótel 6. – 8. október telur áherslur ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum forkastanlegar. Mikil þörf er á að útrýma einbreiðum brúm, sem flestar eru á suðausturhorni landsins, breikka vegi og fjölga útskotum. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að við búum á fallegu landi og þeir ferðamenn sem koma til að heimsækja okkur vilja eiga minningar um það. Þeirri staðreynd að þeir þurfa að stoppa, oft á miðjum vegi, og valda með því stór hættu í umferðinni má að miklu leyti skrifa á lélegt vegakerfi. Með fjölgun útskota og almennilegum vegöxlum (eins og er í nágrenni Reykjavíkur) verður þessi brunnur byrgður.

Stjórn Svæðisfélags VG á Hornafirði

52. Ályktun vegna sveitarstjórnarkosninga vorið 2018

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð telur að komandi sveitarstjórnarkosningar séu vettvangur landsmanna til að jafna kjör og bæta nærsamfélagið. Sveitarfélögin veita almenningi víðtæka grunnþjónustu og móta nánasta umhverfi allra landsmanna. Stefna VG í sveitarstjórnarmálum byggir á því að þjónusta við almenning skuli greiðast af skattfé og sveitarfélögin séu virk í að jafna aðstæður og auka lífsgæði. Í því hægrisinnaða andrúmslofti sem svífur yfir vötnum í landsmálum og síaukinni einkavæðingu á mörgum sviðum, geta sveitarfélögin nú spyrnt við fótum og þar með almenningur í landinu. Sveitarfélögin standa flest mun betur nú en fyrir síðustu kosningar og því mikilvægt að það svigrúm sem hefur skapast sé nýtt í þágu íbúanna á forsendum íbúanna.

Vinstri græn munu setja húsnæðismál á oddinn í komandi kosningum. Öruggt húsnæði  er ein af grunnþörfunum í hverju samfélagi. VG vilja tryggja að fjölbreytt húsnæðisform sem miðast við þarfir hvers og eins sé í boði og að sveitarfélögin beiti sér í þessu grundvallarverkefni sínu.

Vinstri græn vilja stefna að því að öll þjónusta sveitarfélaganna sem snertir börn sé fjölskyldum þeirra að kostnaðarlausu. Slíkt er grundvallarforsenda þess að öll börn hafi sömu tækifæri í samfélaginu.

Vinstri græn vilja einnig að þjónusta sveitarfélaganna við eldra fólk og fólk með fötlun sé aðgengileg, traust og á forsendum notendanna.

Vinstri græn vilja að öll sveitarfélög setji sér það markmið að verða kolefnishlutlaus á komandi kjörtímabili.

VG vilja auka aðkomu íbúa að ákvörðunum með opnara lýðræði, þátttökufjárlagagerð og opnu bókhaldi sveitarfélaga.

Nánar:

VG vilja líta á sveitarfélögin sem tæki til jöfnunar í samfélaginu. Þar undir falla tækifæri sveitarfélaganna til að jafna aðstöðu íbúanna, tryggja að allir geti notið þeirrar þjónustu sem þeir þurfa á þeirra forsendum.

VG vilja jafnframt líta á sveitarfélögin sem gerendur í umhverfismálum, í einstökum færum til að beita sér á þeim vettvangi í skipulagi, í samstarfi við önnur sveitarfélög og í stefnumótun heima fyrir. Sveitarfélögin eiga að vera fyrirmyndar „neytendur“ í samfélaginu og kolefnishlutlaus.

VG líta á sveitarfélögin sem lýðræðisvettvang þar sem hægt er um vik að gefa íbúum kost á mikilli þátttöku í ákvörðunum, bæði hvað varðar stefnumótun og fjármál.

Fyrir hönd málefnahóps um sveitarstjórnarmál,
Sif Jóhannesdóttir

53. Ályktun um sveitarstjórnir sem þriðja stjórnsýslustigið

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Grand Hótel 6 .- 8. október 2017 skorar á  stjórnvöld að auka áhrif og völd landshlutasambanda sveitarfélaga til þess að hafa ákvörðunar- og stjórnskipunarrétt í málefnum sem snerta landshlutana.

Stjórn Svæðisfélags VG á Hornafirði

54. Ályktun um sprotaumhverfi og nýsköpunarmál

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6.-8. október 2017, felur stjórn að móta ítarlega stefnu í nýsköpunarmálum sem lögð verði fyrir næsta landsfund hreyfingarinnar.

Ljóst er að stórfelldar breytingar á atvinnuháttum og vinnumarkaði blasa við með tækniþróun sem fleygir hraðar fram en áður hefur þekkst. Nú þegar hefur orðið hugarfarsbreyting á Íslandi í átt frá stórum heildarlausnum í atvinnumálum. Oftar er horft til fjölbreyttra og sjálfbærra lausna. Vinstri græn telja að framtíðin í atvinnumálum sé ekki fólgin í að ganga á takmarkaðar auðlindir landsins, heldur m.a. í því að búa í haginn fyrir nýsköpun sem byggist á hugviti. Hugvit er auðlind sem þrýtur ekki, og samkeppnishæft, metnaðarfullt og frjótt umhverfi sprotafyrirtækja er leiðin í gegnum þessar öru breytingar. Vinstri græn vilja skapa nýsköpunarumhverfi sem býður einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum upp á bestu mögulegar aðstæður til að nýta hugvit sitt til atvinnuskapandi lausna.

Heildstæðrar nálgunar á umhverfi nýsköpunar er þörf. Í dag eru starfandi sjóðir og verkefni sem miða að því ýta sprotaverkefnum úr vör, en ljóst er að skýr framtíðarsýn um slíkt umhverfi, sem byggir á sjálfbærni, samvinnu og virkjun sköpunarkrafts einstaklinga, getur tryggt þjóðinni samkeppnishæfni og sóknarfæri. Við erum einnig þátttakendur í hnattrænu markaðskerfi þar sem óheft markaðsöfl ganga með ógnvænlegum hraða á auðlindir jarðar. Við getum og eigum að vera mótvægisafl og leggja til nýja nálgun og lausnir sem byggja á vistfræði-, félags- og efnahagslegri sjálfbærni, heiminum öllum til hagsbóta. Þetta getum við með því að líta á næstu skref í uppbyggingu nýsköpunarumhverfis Íslands í alþjóðlegu samhengi.

Öflugt menntakerfi, frá leikskóla- til háskólastigs, er forsenda allrar nýsköpunar. Vinstri græn telja að stórsóknar sé þörf til að tryggja stöðu rannsókna á háskólastigi. Á sama tíma þarf að styrkja tengingu þeirra inn í nýsköpunarumhverfið. Rannsóknir og þróun er líklega það svið nýsköpunar þar sem Ísland hefur mest færi til að skapa sér sérstöðu. Mikilvægur þáttur þess að skapa heildstæða nálgun á umhverfi nýsköpunar er að hafa þor til að greina hvar tækifærin liggja og hafa skýra sýn á forgangsröðun.

Fyrir hönd málefnahóps um atvinnumál,
Elías Jón Guðjónsson og Bergþóra Benediktsdóttir

55. Ályktun um raunfærnimat fyrir innflytjendur

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Innflytjendur eru auðlind fyrir hvert samfélag. Innflytjendur auðga menningu og mannlíf hvers samfélags fyrir utan að vera oft lykilstoð í efnahagslífinu. Mikilvægt er að nýta þekkingu, reynslu og menntun þeirra innflytjenda sem hingað koma samfélaginu til heilla. Eðlilegt er að faglegt mat sé lagt á færni, þekkingu og reynslu innflytjenda burtséð frá aðgengi að viðurkenndum vottorðum þegar viðkomandi kemur frá ótryggu ríki. Slíkt raunfærnimat er til dæmis hægt að framkvæma af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Fyrir hönd málefnahóps um velferðar-, mennta- og heilbrigðismál
Brynhildur Björnsdóttir, Sigursteinn Másson og Sigríður Gísladóttir

56. Ályktun um almannatryggingar sem laun

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Grand Hótel 6. – 8. október 2017, leggur áherslu á að greiðslur frá almannatryggingum séu ekki bætur heldur laun, sem lífeyrisþegar hafa nú þegar unnið fyrir. Slíkar greiðslur eiga því ekki að skerðast með nokkrum hætti og eiga að koma að fullu til greiðslu til lífeyrisþega.

Stjórn Svæðisfélags VG á Hornafirði

57. Ályktun um atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Allt sem er atvinnuskapandi hefur áhrif í náttúrunni, en það hefur einnig áhrif í öðru samhengi. Við mat á umhverfisáhrifum þarf því að horfa til þriggja meginþátta sjálfbærni, það er áhrifa á náttúru, efnahag og samfélög.

Vinstri græn mikilvægt að horfa til lífríkisins og samfélagsins í samhengi þegar mat er lagt á nýjar hugmyndir í atvinnusköpun. Ekki má líta framhjá mögulegum mótvægisaðgerðum og reglur og eftirlit þurfa að vera með þeim hætti að ekki sé hætta á umhverfisslysum og hægt sé að grípa inn í starfsemi ef hætta skapast.  Ef þessi skilyrði eru uppfyllt ætti að vera hægt að skapa fjölbreytt störf sem ekki skapa hættuástand í umhverfi sínu.

VG á Vestfjörðum

58. Ályktun um húsnæði fyrir alla

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill tryggja öllum öruggt og boðlegt húsnæði óháð efnahag og félagslegum aðstæðum. Húsnæðismál eru mannréttindamál og kjaramál. Samfélaginu er skylt að tryggja öllum aðgang að húsnæði í samræmi við sínar þarfir. Í fjölbreyttu samfélagi höfum við ólíkar þarfir og væntingar til húsnæðis og það er samfélagsins að mæta þeim þörfum. Í dag er bæði erfitt að eignast húsnæði en einnig að fá leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Þessu viljum við breyta með mannúðlegra lánaumhverfi sem tryggir aðgang að félagslegum lánum. Fjölbreytta uppbyggingu leigumarkaðar og opinberan stuðning við stofnun leigufélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Það er ekki boðlegt að nánast helmingur ráðstöfunartekna heimila fari í húsnæðiskostnað og því teljum við mikilvægt að  hlutfall húsnæðiskostnaðar fari ekki yfir 25% ráðstöfunartekna. Það þarf að efla samfélagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs til þess að rétta hlut þeirra sem minna hafa á milli handanna og veita þannig lán á raunhæfari kjörum en hinn frjáls markaður bankanna gerir í dag.

Fyrir hönd málefnahóps um húsnæðismál
Kolbeinn H. Stefánsson og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir

59. Ályktun um húsnæði og sveitarfélög

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Vinstri græn vilja að sveitarfélög geti boðið fjölbreytta kosti í skipulagi nýrra og endurnýjaðra íbúðahverfa. Sveitarfélög séu jafnframt hvött til uppbyggingar íbúðahverfa með fjölbreyttu búsetuformi sem auðgar samfélagið. Í þessu samhengi er mikilvægt að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu vinni saman að skipulagi svo hægt sé að nýta nærþjónustu svæðisins sem best. Á þeim svæðum þar sem sérstök þörf er á uppbyggingu verði möguleiki á skattaívilnunum og tekjustofnar sveitarfélaganna styrktir þannig að þau séu betur í stakk búinn til að sinna húsnæðisþörf síns svæðis t.a.m. með nýbyggingum. Jafnframt er nauðsynlegt að sveitarfélög geti boðið upp á félagslegt húsnæði þar sem biðlistar dagsins í dag eru óviðunandi og fara einungis stækkandi. Mikilvægt er að auka framlög ríkisins til húsnæðismála, bæði í formi stofnstyrkja, ívilnana til leigufélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða og með því að festa í sessi félagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs.

Fyrir hönd málefnahóps um húsnæðismál
Kolbeinn H. Stefánsson og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir

60. Ályktun um húsnæði í sátt við umhverfið

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Vinstri græn vilja að íbúðarhúsnæði verði vistvænt og í sátt við umhverfið, þannig verði tekið tillit til umhverfissjónarmiða þegar horft er til nærþjónustu og uppbyggingar nýrra hverfa. Jafnframt að byggingarefni sé vistvænt þar sem því er við komið og hvatt til notkunar á íslensku byggingarefni. Orkunotkun við byggingu og rekstur húsnæðis verði sem minnst og skipulag húsnæðis taki mið af þeirri stefnu. Húsnæði sem byggt er taki mið af þörfum nútímans og sé til að mynda tekið tillit til aukinnar notkunar almenningssamgangna þar sem það á við, t.a.m. með fjölda bílastæða, og að aðgengi sé tryggt fyrir alla.

Fyrir hönd málefnahóps um húsnæðismál
Kolbeinn H. Stefánsson og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir

61. Ályktun um alvöru húsnæðiskerfi

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, harmar það að ríkisstjórnin hafi ekkert gert til þess að leysa húsnæðiskreppuna sem ríkir víða um land. Fasteignaverð er komið upp úr öllu valdi og launafólk er látið keppa við ferðamenn á fjandsamlegum leigumarkaði. Fáir hafa getu til þess að leggja út fyrir þeim fjárhæðum sem þarf að eiga til þess að geta lagt út fyrir útborgun í íbúð, og þá sérstaklega þegar margir borga meira en helming launa sinna í leigu. Að nýta séreignasparnað og fá fyrirframgreiddan arf eru aðgerðir sem gagnast mjög fáum, sérstaklega í hópi þeirra sem ekki hafa há laun eða eiga ríka foreldra. Slíkar aðgerðir ráðast ekki að rót vandans og stuðla að enn frekari ójöfnuði í húsnæðismálum. Á meðan lengjast biðlistar eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögum, og dæmi eru um að fólk í mikilli neyð hafi verið á annan áratug á biðlista eftir húsnæði. Lagasetningar þurfa að koma til svo að félagsþjónustur eigi auðveldara með að kaupa húsnæði til þess að stytta biðlista.

Einnig þurfa að koma til lagasetningar sem skylda öll sveitafélög til þess að bjóða upp á jafnt hlutfall félagslegra íbúða, en eins og staðan er núna komast sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu upp með að rukka lægra útsvar og bjóða upp á lélegri félagslega þjónustu – svo að þau sem þarfnast félagslegrar þjónustu sækja frekar til Reykjavíkur. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill sterkt húsnæðiskerfi og að leiga sé raunverulegur valkostur. Ríkið ætti að stofna leigufélag sem stjórnast ekki af gróðasjónamiðum, rukkar hóflega leigu sem tekur árlega hækkun samkvæmt almennu verðlagi, en stjórnast ekki af gróðafíkn leigusala og stærri leigufélaga sem keypt hafa upp gríðarlegt magn af íbúðum í Reykjavík.

Framkvæmdastjórn UVG

62. Ályktun um jöfn tækifæri og lífsgæði fyrir ungt fólk

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, harmar það að ríkisstjórnin hafi ekkert gert til þess að leysa húsnæðiskreppuna sem ríkir víða um land. Fasteignaverð er komið upp úr öllu valdi og launafólk er látið keppa við ferðamenn á fjandsamlegum leigumarkaði. Fáir hafa getu til þess að leggja út fyrir þeim fjárhæðum sem þarf að eiga til þess að geta lagt út fyrir útborgun í íbúð, og þá sérstaklega þegar margir borga meira en helming launa sinna í leigu. Að nýta séreignasparnað og fá fyrirframgreiddan arf eru aðgerðir sem gagnast mjög fáum, sérstaklega í hópi þeirra sem ekki hafa há laun eða eiga ríka foreldra. Slíkar aðgerðir ráðast ekki að rót vandans og stuðla að enn frekari ójöfnuði í húsnæðismálum. Á meðan lengjast biðlistar eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögum, og dæmi eru um að fólk í mikilli neyð hafi verið á annan áratug á biðlista eftir húsnæði. Lagasetningar þurfa að koma til svo að félagsþjónustur eigi auðveldara með að kaupa húsnæði til þess að stytta biðlista.

Einnig þurfa að koma til lagasetningar sem skylda öll sveitafélög til þess að bjóða upp á jafnt hlutfall félagslegra íbúða, en eins og staðan er núna komast sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu upp með að rukka lægra útsvar og bjóða upp á lélegri félagslega þjónustu – svo að þau sem þarfnast félagslegrar þjónustu sækja frekar til Reykjavíkur. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill sterkt húsnæðiskerfi og að leiga sé raunverulegur valkostur. Ríkið ætti að stofna leigufélag sem stjórnast ekki af gróðasjónamiðum, rukkar hóflega leigu sem tekur árlega hækkun samkvæmt almennu verðlagi, en stjórnast ekki af gróðafíkn leigusala og stærri leigufélaga sem keypt hafa upp gríðarlegt magn af íbúðum í Reykjavík.

Framkvæmdastjórn UVG

63. Ályktun um lækkum kosningaaldurs

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017,  fagnar frumvarpi um lækkun kosningaaldurs sem fulltrúar sex flokka lögðu fram í febrúar síðastliðnum.

Frumvarpið kveður á um lækkun kosningaaldurs í sveitastjórnarkosningum úr 18 árum í 16. Ungt fólk skortir rödd í samfélaginu. Með frumvarpinu eru þingmenn Vinstri grænna, sem og flutningsmenn annarra flokka, að lýsa yfir trausti sínu á ungu fólki og viðurkenna þau sem þátttakendur í samfélaginu sem ber að virða.

Ef frumvarpið verður samþykkt gerir það ungmennum kleift að hafa áhrif á þá þætti sem snerta þeirra daglega líf hvað mest.

Framkvæmdastjórn UVG

64. Ályktun um innra starf

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Fundurinn beinir því til stjórnar og skrifstofu að halda áfram að byggja upp þekkingu og leiðsögn í fjarfundum og tengja þannig betur saman starfið á landsvísu. Fyrir þurfa að liggja skýrar leiðbeiningar um notkun, um framkvæmd og fundarsköp á fjarfundum og aðgengilegur tæknibúnaður. Fjarfundur ætti alltaf að vera mögulegur á hvaða fundi á vegum VG sem er og í starfi vinnuhópa.

Stjórn svæðisfélags VG á Akureyri, Sóley Björk Stefánsdóttir og Edward H. Huijbens

65. Ályktun um innra starf svæðisfélaga

Senda breytingartillögu Hafa samband við flutningsmann

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – Græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. til 8. október 2017 felur stjórn VG að skipa starfshóp undir forystu nýkjörins varaformanns og skal hópurinn, fyrir febrúarlok 2018:

– Fara yfir innra starf svæðisfélaga utan Reykjavíkur og greina stöðu þess

í samvinnu við stjórnir félaganna, stjórnir kjördæmisráða og þingmenn.

– Vinna hugmyndir að leiðum til úrbóta eftir því sem unnt er.

– Vinna frumáætlanir um úrbætur til 2-3 ára með stjórnum svæðisfélaga sem

aðlaga þær að þörfum landsvæða með félögum sínum.

Ari Trausti Guðmundsson, Daníel E. Arnarsson, Ingibjörg Þórðardóttir, Þorsteinn Ólafsson